Lögmannskostnaður sakborninganna níu í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings nemur samtals um 263 milljónum króna. Af þeirri upphæð greiðast 68 milljónir úr ríkissjóði, samkvæmt dómsorði í dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í dag og hefur verið birtur á vefsíðu héraðsdómstólanna.
Lögmannskostnaður Hreiðars Más Sigurðssonar nemur alls tæpum 48 milljónum króna. Þar af greiðist einn þriðji hluti úr ríkissjóði eða tæpar 16 milljónir króna. Hörður Felix Harðarson hrl. var lögmaður Hreiðars Más. Sigurður Einarsson greiðir lögmanni sínum, Gesti Jónssyni hrl. samtals um 23,1 milljón króna auk þess sem einn þriðji hluti greiðist úr ríkissjóði, eða um 11,6 milljónir króna til viðbótar. Lögmaður Ingólfs Helgasonar, Grímur Sigurðsson hrl., fær 41,3 milljónir króna og greiðir Ingólfur tvo þriðju hluta en einn þriðji hluti greiðist úr ríkissjóði. Fyrri verjandi Ingólfs, Jóhannes Bjarni Björnsson hrl., fær greiddar 17,2 milljónir úr ríkissjóði.
Einar Pálmi Sigurmundsson greiðir verjanda sínum, Gizuri Bergsteinssyni hrl., alls 14,6 milljónir króna. Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarssonar greiða hvor um sig 24,6 milljónir króna í lögmannskostnað, til Halldórs Jónssonar hrl. og Vífils Harðarsonar hrl.
Bjarki H. Diego greiðir málsvarnarlaun að þriðju fjórða hluta en alls nemur upphæðin um 25,3 milljónum króna, auk þess sem fyrri verjandi hans, Brynjar Níelsson hrl., fær greiddar um 1,6 milljónir.
Málsvarnarlaun verjanda Magnúsar Guðmundssonar eru greidd úr ríkissjóði en verjandi hans var Kristín Edwald hrl. Upphæðin nemur alls 19,9 milljónum króna. Sama gildir um málsvarnarlaun verjanda Bjarkar Þórarinsdóttur, Halldórs Jónssonar hrl, sem nema um 10,8 milljónum króna.
Dæmt var í máli ákæruvaldsins gegn nímenningunum í morgun. Sjö af níu voru dæmdir til refsingar en Björk Þórarinsdóttir og Magnús Guðmundsson voru sýknuð. Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Sær Björnsson, Pétur Kristinn Guðmundsson og Bjarki H. Diego voru allir dæmdir sekir. Hreiðari Má var ekki gerð frekari refsing, en hann afplánar nú þegar fimm og hálfs árs fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins svokallaða. Sigurður Einarsson fékk eins árs hegningarauka við þann fjögurra ára dóm sem hann hlaut í Al Thani- málinu. Ingólfur Helgason hlaut þyngsta dóminn, fjögurra og hálfs árs fangelsi að frádregnu gæsluvarðhaldi sem hann sætti á sínum tíma. Bjarki H. Diego hlaut tveggja og hálfs árs dóm, Einar Pálmi tveggja ára skilorðsbundinn dóm og Birnir Sær og Pétur Kristinn fengu báðir 18 mánaða skilorðsbundinn dóm.