Íslenska hljómsveitin Mammút mun hita upp fyrir Of Monsters and Men á Evróputúr síðarnefndu hljómsveitarinnar sem fram fer í haust og vetur. Of Monsters and Men er nú á tónleikaferð um heiminn til að fylgja eftir nýjustu plötu sinni, Beneath the Skin, sem hefur selt mjög vel alþjóðlega frá því að hún kom út í byrjun júní. Platan, sem er önnur hljóðversplata Of Monsters and Men, komst í þriðja sæti Billboard-listans í Bandaríkjunum í fyrstu vikunni eftir útgáfu og í efsta sætið á iTunes-listanum í Bandaríkjunum. Platan for auk þess beint í fyrsta sætið á sölulistanum í Kanada. Hún komst auk þess inn á topplista í tugum annarra landa og var ein söluhæsta plata heims þá vikuna.
https://soundcloud.com/bella-union/mamm-t-blood-burst
Bæði Mammút og Of Monsters and Men hafa unnið Músíktilraunir, Mammút árið 2004 en Of Monsters and Men árið 2010. Mammút skrifaði nýverið undir útgáfusamning við útgáfufyrirtækið Bella Union sem hefur á sínum snærum tónlistarmenn eins og John Grant auk hljómsveitanna Beach House, Mercury Rev og Fleet Foxes. Í byrjun sumars gaf hljómsveitin út smáskífuna River´s End á vegum útgáfunnar og von er á breiðskífu vorið 2016. Í tilkynningu frá Mammút segir að það sé frábært tækifæri að fá að hita upp fyrir Of Monsters and Men "enda hefur árangur Of Monsters and Men verið einstakur og því von á fullu húsi hvar sem komið er."