Stjórn Læknafélags Íslands og stjórn Félags læknanema gerir alvarlegar athugasemdir við þann hluta frumvarps um breytingu á lögum um útlendinga er varðar heilbrigðisskoðanir og læknisrannsóknir. Sambærilega gagnrýni hafa einstakir læknar og hjúkrunarfræðingar gert. Frumvarpsdrögin voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 28. janúar og rann umsagnafrestur út 11. febrúar. 22 umsagnir bárust.
Það er 19. grein frumvarpsins sem félögin tvö gera sérstakar athugasemdir við. Samkvæmt henni yrði lögreglu gert heimilt „að skylda útlending til að gangast undir heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn ef nauðsynlegt þykir til að tryggja framkvæmd“.
Í greinargerð með frumvarpinu er sérstaklega fjallað um að þetta taki m.a. til heilbrigðisskoðana til að tryggja að einstaklingur „sé nægilega hraustur til að geta ferðast (e. fit-to-fly)“.
„Við teljum þetta ekki samræmast þeim siðareglum sem læknar starfa eftir,“ segir í umsögn Læknafélagsins og Félags læknanema og benda þau á að í 3. grein Helsinki-yfirlýsingarinnar séu siðareglur lækna í þessu samhengi vel teknar saman: „Genfaryfirlýsing Alþjóðafélags lækna bindur lækninn með orðunum: „Ég mun hafa heilsu sjúklinga minna að leiðarljósi framar öllu öðru“ og í Alþjóðasiðareglum lækna er því lýst yfir að „læknir skal aðeins gera það sem er sjúklingnum fyrir bestu, þegar hann veitir læknisþjónustu“.
Sé útlendingur sem vísa á úr landi tilneyddur til að sæta slíkri skoðun, „má gefa sér að viðkomandi sé andvígur því að vera vísað úr landi,“ segja félögin. „Oft hafa einstaklingar í slíkri stöðu flókin vandamál, gjarnan á grunni áfallastreitu, og verið er að vísa þeim aftur í aðstæður þar sem þau telja lífi sínu og heilsu ógnað. Með því að gera ofangreint vottorð þyrfti læknir að telja að slík brottvísun úr landi sé viðkomandi fyrir bestu, sbr. ofangreindar siðareglur. Virðing fyrir manneskjunni og gagnkvæmt traust er grundvöllur læknisstarfsins. Framkvæmd sem þessi vinnur gegn hagsmunum og mannréttindum sjúklinga, og teljum við hana stangast á við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.“
Í öðru lagi gera félögin alvarlegar athugasemdir við að ekki sé krafist dómsúrskurðar áður en útlendingur er neyddur til að sæta heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn. Til samanburðar nefna þau 2. mgr. 78. gr. sakamálalaga, þar sem segir: „Líkamsrannsókn eða geðrannsókn skv. 77. gr. skal ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þess sem í hlut á.“
Lögreglu heimilt að skylda fólk í líkamsrannsókn
Í tilfelli sakborninga í sakamálum þurfi þannig dómsúrskurð til að gera líkamsrannsókn á viðkomandi. Í nýju frumvarpsdrögunum hafi lögregla hins vegar „einfaldlega heimild til að skylda viðkomandi til þess. Neiti útlendingur að undirgangast slíka rannsókn er lögreglu heimilt, skv. frumvarpi, að sækja dómsúrskurð til þess.
Að okkar mati ætti þessu að vera öfugt snúið, að í öllum tilfellum þurfi að afla dómsúrskurðar nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þess sem í hlut á. Mannréttindi útlendinga ættu að ekki vera minni en mannréttindi sakborninga á Íslandi.“
Þá benda félögin í umsögn sinni á að í frumvarpinu sé margt óljóst um framkvæmd heilbrigðisskoðana og læknisrannsókna. „Hvaða læknar eiga að sinna þeim skoðunum og tilheyrandi útgáfu vottorða? Þarf í ákveðnum tilfellum að leita álits sérfræðilæknis? Hvað ef læknir telur viðkomandi ekki vera hæfan til að vera fluttur úr landi? Hvað ef tveir læknar eru ósammála um slíkt, sbr. brottvísun þungaðrar konu árið 2019? Hvaða ábyrgð ber læknir sem ritar slík vottorð?“
Heimild til að brjóta gegn mannréttindum
Stjórnir LÍ og FL telja að margir ágallar séu á 19. grein frumvarpsins, en allra mikilvægast sé þó að framkvæmd á henni af hálfu lækna „er ekki í samræmi við siðareglur sem læknar eru skuldbundnir til að starfa samkvæmt“.
Jafnframt sé með frumvarpinu boðuð heimild til að „brjóta gegn mannréttindum fólks í mjög viðkvæmri stöðu“.
Stjórnir LÍ og FL hvetja dómsmálaráðherra til að gera verulegar breytingar á þessari lagagrein áður en frumvarpið er lagt fram. „Hér er um flókin siðfræðileg álitamál að ræða og hvetjum við ráðherra til að leita ráðgjafa frá sérfræðingum á sviði siðfræði í heilbrigðisþjónustu við endurskoðun 19. gr. frumvarpsins.“