„Það stendur til að bjóða þessum aflandskrónueigendum fjárfestingakosti sem draga þá verulega úr líkum á óstöðugleika við losun fjármagnshafta, annað hvort að minnka hengjuna þegar frekar eða binda hana með einhverjum hætti,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri um breytingar á undanþágulistum og reglum Seðlabanka Íslands vegna gjaldeyrismála.
Eins og greint var frá í dag hefur undanþágum og reglum bankans verið breytt til að búa í haginn fyrir frekari skref að losun fjármagnshafta. Undanþágur bankans takmarkast nú við ríkisvíxla og eitt ríkisskuldabréf (RIKB 15 0408). Þessi bréf eru enn undanþegin takmörkunum laga um gjaldeyrismál. Eigendur þeirra skuldabréfa sem eru ekki lengur með undanþágu mega selja þau, en mega aðeins fjárfesta í þeim bréfum sem eru enn á undanþágulista Seðlabankans.
Aðgerðirnar snúa því aðeins að aflandskrónueignum, sem nema nú tæplega fimmtán prósentum af vergri landsframleiðslu.
Már segir breytingarnar miða að því að halda stöðunni fastri þar til tillögur um frekari losun hafta koma fram, svo landslagið breytist ekki of mikið. „Hins vegar það að við segjum að það er verið að varðveita skilvirkni skuldabréfamarkaðar. Við erum að tryggja að þeir virki eðlilega og það sé enginn órói þar, einhver mikil viðskipti sem byggðust þá kannski á sögusögnum sem eru sannar eða ekki sannar. Þetta er eiginlega öryggisráðstöfun, undirbúningsskref. Auðvitað væri ekki tekið undirbúningsskref nema það væri búið að hugsa eitthvað hvað gerist næst, en ég get ekki upplýst meira um það að sinni,“ segir Már.
Aðspurður segist Már ekki geta upplýst neitt um mögulegt gengi sem þessum aflandskrónueigendum mun bjóðast. Þá segir hann ekki verið að vinna með neinn tímaramma á þessar aðgerðir. „Eins fljótt og mögulegt er, en ekki fyrr en mögulegt er.“