Már Guðmundsson Seðlabankastjóri segist hafa leitað leiða til að ljúka Samherjamálinu með sátt en hafi ekki mátt það. Hann segir að lagaramminn sem Seðlabankinn þarf að vinna eftir í rannsóknum sé mögulega of þröngur. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur gagnrýnt Seðlabankann harkalega undanfarið, eftir að sérstakur saksóknari felldi niður sakamál, sem hófst með rannsókn gjaldeyriseftirlits Seðlabankans á Samherja. Þorsteinn hefur sagt annarlegar hvatir liggja að baki rannsókn bankans, sakar hann um illvilja og falsanir. Hann vill að Már segi af sér og hefur sakað hann um að vilja eyðileggja sem mest fyrir sér og útgerðinni.
„Það er enginn illvilji á bakvið þetta hjá okkur, þvert á móti. Svona persónulega hef ég alla tíð haft mikið álit á Þorsteini Má og Samherja og svo framvegis, og það var nú mér mikið áfall þegar kom í ljós að svo virtist vera að þarna hefði verið brot á gjaldeyrislögum,“ segir Már í samtali við RÚV. Hann segist hissa á Þorsteini Má.
Stór fyrirtæki geti stundum nuddast utan í opinbert regluverk. „Kannski ekkert endilega með einhvern einbeittan brotavilja.“ Hann segir að þegar viðskipti eða regluverk verði flókið geti menn stundum dottið vitlausu megin við línuna, þó að það hafi kannski ekki alltaf verið meiningin. „Og það er engin ástæða til að persónugera þetta, hvorki gagnvart Samherja og honum eða gagnvart okkur.“
Hann segist hafa látið kanna hvort einhver leið væri til að lenda Samherjamálinu með sátt en lögfræðingar bankans hafi komist að því að slíkt væri lögbrot. „Ef það er grunur um meiriháttar brot þá ber okkur, ekki bara megum, heldur ber, það er á okkur sú lagaskylda að kæra það þá til saksóknara sem er lögregluyfirvald,“ segir Már við RÚV.