Már Guðmundsson seðlabankastjóri mun kynna nýja vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í jólapeysu. Þetta staðfestist seint í gærkvöldi þegar áheit á hann á heimasíðunni www.jolapeysan.is fóru yfir 600 þúsund krónur. Már verður fyrsti seðlabankastjóri Íslandssögunnar til að kynna nýja stýrivexti í jólapeysu. Hann hafði fallist á beiðni Barnaheilla um að styðja átak gegn einelti sem nú er í gangi með því að klæðast jólapeysu við þetta tilefni ef áheit á hann færu yfir 600 þúsund krónur. Í morgun stóðu áheitin í 604 þúsund krónum og því ljóst að takmarkinu er náð.
Vef útsendingin verður aðgengileg hér og hefst klukkan 10:00.
Búist við frekari lækkun
Í nóvember lækkuðu stýrivextir um 0,25 prósent og standa nú í 5,75 prósentum. Einn nefndarmaður í peningastefnunefndinni var á móti lækkuninni en fjórir greiddu atkvæði með henni. Það var í fyrsta sinn í rúm tvö ár sem vextir voru lækkaðir hérlendis. Stýrivextir eru samt sem áður með þeim hæstu í vestrænum heimi hérlendis.
Í ljósi þess að verðbólga mælist nú um eitt prósent og hagvöxtur virðist,samkvæmt nýbirtum frumgögnun Hagstofu Íslands, hafa verið einungis 0,5 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins í ár þegar flestar spár gerðu ráð fyrir að hann yrði um og yfir þrjú prósent, er talið líklegra en ella að vextir verði lækkaðir aftur í dag.
Tilkynnt verður um vaxtaákvörðunina á vef Seðlabankans klukkan 8:55 í dag. Klukkan 10:00 hefst síðan vefútsending þar sem Már Guðmundsson, í jólapeysunni, og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankanstjóri færa rök fyrir ákvörðun peningastefnunefndar.
Ljóta jólapeysan á sér merkilega sögu
Hallgrímur Oddsson, hagfræðingur og sérfræðingur Kjarnans í ljótum jólapeysum, fjallaði ítarlega um sögu hennar í hljóðpistli um helgina. Þar kom fram að ljóta jólapeysan hafi síðastliðin ár notið sívaxandi vinsælda og aldrei verið vinsælli en nú fyrir jólin 2014.
Bill Cosby er einn upphafsmanna ljótra jólapeysa.
Stórar verslunarkeðjur framleiða eigin jólapeysur og annan föstudag í desember verður Ljótu jólapeysudagurinn haldinn hátíðlegur í fjórða sinn. Ólíklegasta fólk hefur grætt háar fjárhæðir á því að sýsla með ljótar jólapeysur, en vinsældir upprunalegu peysunnar má rekja aftur til 9. áratugarins, meðal annars til hins umdeilda Bills Cosby.