Hagfræðideild Landsbankans verðmetur Marel á 0,93 evrur, eða 143,6 krónur á hlut, sem er átta prósent yfir skráðu gengi félagsins þann 16. desember 2014, en þá var það 133 krónur á hlut. Það sem helst er talið vinna með félaginu, horft fram á næsta ár, eru hrávöruverðlækkanir, efnahagsbati í Bandaríkjunum, ódýrt lánsfjármagn í heiminum og endurnýjunarþörf viðskiptavina félagsins.
Á þremur mánuðum hefur markaðsvirði Marel hækkað um 35 prósent, og hefur afkoma félagsins verið yfir vætingum greinenda.
Hagfræðideildin býst við því að árið 2015 verði gott ár fyrir Marel. „Við gerum ráð fyrir 12 prósent tekjuvexti á næsta ári og að EBIT ársins verði 62,4 milljónir evra. Við áætlum tíu milljónir evra í einskiptiskostnað í samræmi við áætlun félagsins sjálfs og því er leiðrétt EBIT fyrir árið 2015 72,4 milljónir evra,“ segir meðal annars í verðmatinu, og rökstuðningi fyrir hlutabréfaráðgjöfinni. Ráðgjöf hagfræðideildarinnar er að halda bréfunum.
Sjá má verðmatið í heild sinni hér að neðan.
Hagfræðideild Landsbankans - Verðmat - Marel 17.desember 2014 (1)