Margrét Marteinsdóttir hefur verið kjörin stjórnarformaður Bjartrar framtíðar. Hún tekur við hlutverkinu af Heiðu Kristínu Helgadóttur sem ákvað að hætta afskiptum af stjórnmálum seint á síðasta ári og réði sig nýverið til 365 miðla. Stjórnarformaður er annar formaður flokksins. Í hinu formannssætinu situr Guðmundur Steingrímsson þingmaður.
Kjör Margrétar fór fram á aukaársfundi flokksins á Akranesi og hlaut Margrét 53 prósent greiddra atkvæða, en gjaldkeri og varaþingmaður flokksins, Brynhildur S. Björnsdóttir var einnig í framboði. Stjórnarformaður stýrir stjórn Bjartrar framtíðar sem telur 80 manns, hefur umsjón með málefnastarfi flokksins og er tengiliður stjórnar við sveitarstjórnarframboð.
Í tilkynningu frá flokknum segir að Margrét sé 43 ára, býr í Reykjavík og starfar sem vert á Kaffihúsi Vesturbæjar. Hún vann í 16 ár á Ríkisútvarpinu, lengst af sem fréttakona en starfaði þar einnig við dagskrárgerð um árabil auk þess að vera varafréttastjóri og dagskrárgerðarstjóri á Rás 1 og Rás 2. Fyrir þann tíma vann hún að mestu við aðhlynningu á hjúkrunarheimilum, lengst af á Grund. Hún hefur starfað með Bjartri framtíð síðan fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar þar sem hún var í framboði í Reykjavík.