Maríanna Jónasdóttir, fyrrum stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og skrifstodustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, hefur dregið framboð sitt til stjórnar Vátryggingafélags Íslands (VÍS) til baka. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hún sendi til VÍS í dag. Þar segir að „ákvörðunin sé tekin í köjlfar umræðu sem framboð hennar hafi skapað og höfuðmáli skipti fyrir hag hvers fyrirtækis að trúverðugleiki ríki um stjórn þess“.
Eftir að Maríanna dró framboð sitt til baka eru fimm einstaklingar í framboði til aðalstjórnar VÍS og því sjálfkjörið í hana, en fimm sæti eru í stjórninni. Stjórnina munu skipa Ásta Dís Óladóttir, Bjarni Brynjólfsson, Guðrún Þorgeirsdóttir, Helga Jónsdóttir og Steinar Þór Guðgeirsson.
Reglur um kynjahlutföll útilokuðu eina konu
Í tilkynningu til Kauphallar um liðna helgi kom fram að krafa hefði verið sett fram um margfeldiskosningu í stjórn VÍS. Hún átti að fara fram með þeim hætti að kosið yrði á milli einstaklinga. Gildi hvers atkvæðis skyldi síðan margfaldað með fjölda þeirra stjórnarmanna sem kjósa átti og gat hluthafi skipt atkvæðamagni sínu, þannig reiknuðu, í þeim hlutföllum sem hann sjálfum kaus.
Upphaflega voru sex frambjóðendur í stjórn VÍS en einungis fimm stjórnarsæti í boði. Fjórar konur voru í framboði en tveir karlar. Það þýddi að ein konan myndi ekki geta náð kjöri sama hvernig kosningar í stjórn færu vegna reglna um kynjahlutföll í stjórnum skráðra fyrirtækja.
Nú hefur það mál leyst af sjálfu sér í kjölfar þess að Maríanna ákvað að draga framboð sitt til baka.