Velta verslananna vegna sölu á dagvöru er áætluð um 130 milljarðar króna á árinu 2014, og var hlutdeild Haga um 48-49 prósent en fyrirtækið rak árið 2014 alls 41 dagvöruverslun. Af verslanakeðjum var Bónus með hæstu hlutdeildina eða 38-39 prósent. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um dagvörumarkaðinn.
Árið 2014 voru starfandi tæplega 180 dagvöruverslanir á Íslandi.
Hlutdeild Kaupáss var um 19-20 prósent en þar af var hlutdeild Krónunnar 15-16 prósent.
Samkaup voru með 15-16 prósent hlutdeild en þar af var hlutur Nettó 8-9 prósent af heildarmarkaði. 10-11/Iceland var með 5-6 prósent. Aðrar dagvöruverslanir sem hafa nokkra markaðshlutdeild eru Fjarðarkaup og Víðir en hlutdeild þeirra var á bilinu 1-3 prósent. Ekki er um aðrar dagvöruverslanir að ræða sem hafa teljandi markaðshlutdeild.