Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara á hendur níu fyrrverandi starfsmönnum og stjórnendum Kaupþings, hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Stærð og umfang málsins málsins á sér ekki hliðstæðu hér á landi og þá er áætluð lengd aðalmeðferðar án fordæmis en reiknað er með að vitnaleiðslur í málinu muni taka 17 daga og málflutningur fimm daga, samtals 22 dagar fyrir dómi. Þá verða fleiri en 50 manns kallaðir til sem vitni við aðalmeðferð málsins.
Þeir níu sem sæta ákæru í málinu, en þeirra á meðal eru Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings og Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður bankans, eru sakaðir um umfangsmikla markaðsmisnotkun síðasta árið fyrir bankahrun.
Samkvæmt ákæru málsins höfðu hinir ákærðu áhrif á verð hlutabréfa í Kaupþingi með kerfisbundum og stórfelldum kaupum, en um 40 prósent viðskipta með bréf Kaupþings í Kauphöll Íslands á áðurnefndu tímabili voru sýndarviðskipti, að því er fram kemur í ákæru.
Þá lagði Kaupþing erlendum félögum til háar upphæðir til kaupa á hlutum í bankanum, sem voru fjármögnuð að fullu af bankanum sjálfum, og því um blekkingar og sýndarviðskipti að ræða. Al-Thani fléttann, þar sem Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson fengu þunga fangelsisdóma, var einn angi af þessu máli.