Dómsniðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur í stóra markaðsmisnotkunarmálinu gegn fyrrum yfirmönnum og starfsmönnum Kaupþings hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar, samkvæmt frétt á vefsíðu Viðskiptablaðsins. Samkvæmt heimildum blaðsins verður málið flutt í Hæstarétti í sömu mynd og fyrir héraðsdómi hvað fjölda sakborninga varðar.
Þann 26. júní síðastliðinn voru Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Sær Björnsson, Pétur Kristinn Guðmarsson og Bjarki H. Diego allir dæmdir sekir í málinu í héraðsdómi Reykjavíkur. Tveimur liðum ákæru á hendur Magnúsi Guðmundssyni var vísað frá en að öðru leyti var hann sýknaður af þeim sökum sem á hann voru bornar. Björk Þórarinsdóttir var einnig sýknuð í málinu.
Hreiðari Má var ekki gerð frekari refsing, en hann afplánar nú þegar fimm og hálfs árs fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins svokallaða. Sigurður Einarsson fékk eins árs hegningarauka við þann fjögurra ára dóm sem hann hlaut í Al Thani- málinu. Ingólfur Helgason hlaut þyngsta dóminn, fjögurra og hálfs árs fangelsi að frádregnu gæsluvarðhaldi sem hann sætti á sínum tíma. Bjarki H. Diego hlaut tveggja og hálfs árs dóm, Einar Pálmi tveggja ára skilorðsbundinn dóm og Birnir Sær og Pétur Kristinn fengu báðir 18 mánaða skilorðsbundinn dóm.
Fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins að það var ríkissaksóknari sem áfrýjaði málinu hvað varðar alla sakborninga nema þáttum Hreiðars Más, Sigurðar Einarssonar og Bjarka H. Diego. Þeir voru fyrri til að áfrýja málinu.
Aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi tók 130 klukkustundir og stóð yfir í 22 daga. Málið er eitt stærsta mál sinnar tegundar í Íslandssögunni.