Markaðsvirði Alvotech jókst um 68 milljarða króna á tveimur dögum í lok liðinnar viku, eftir að hlutabréf félagsins voru færð af First North markaðnum yfir á Aðalmarkað Kauphallar Íslands. Í lok dags 7. desember var markaðsvirði Alvotech um 285 milljarðar króna en við lok viðskipta á föstudag var það komið í 353 milljarða króna.
Um er að ræða næstum 24 prósent hækkun á markaðsvirði félagsins á 48 tímum, en það var fyrst skráð á First North markaðinn í sumar og hafði fallið skarpt í verði á þeim mánuðum sem liðnir voru frá skráningu. Þrátt fyrir hina miklu hækkun á síðustu dögum er markaðsvirði Alvotech enn undir því gengið sem var á bréfum þess þegar þau voru fyrst tekin til viðskipta á íslenskum hlutabréfamarkaði síðari hluta júnímánaðar. Þar munar þó einungis 3,9 prósentum eins og er.
Mikið tap en vænta hagnaðar á næsta ári
Alvotech er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja.
Félagið setti á þessu ári á markað samheitalyfið Hukyndra sem framleitt er í lyfjaverksmiðju félagsins í Vatnsmýrinni. Um er að ræða fyrsta lyf Alvotech á markaði. Þann 7. desember var tilkynnt um að lyfið væri komið í sölu í 16 Evrópulöndum og í Kanada.
Skömmu áður, 1. desember, var greint frá því að Mark Levick, forstjóri félagsins, hefði ákveðið að biðjast lausnar og að Róbert Wessman, starfandi stjórnarformaður og stofnandi Alvotech, muni taka við forstjórastarfinu. Róbert verður því bæði stjórnarformaður og forstjóri.
Alvogen tapaði 28 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Tekjur félagsins jukust hins vegar mikið, úr 291 milljónum króna á sama tímabili í fyrra í 8,7 milljarða króna. Róbert Wessmann sagði við Fréttavaktina á Hringbraut í vikunni að áætlanir geri ráð fyrir að hagnaður verið af rekstrinum eftir mitt næsta ár.