Hlutabréf í öllum skráðum félögum lækkuðu í verði í Kauphöll Íslands í dag. Viðskiptadagurinn var sá versti það sem af er ári og aðeins sex sinnum frá árinu 2010 hafa hlutabréf í Kauphöllinni lækkað meira en í dag. Mest lækkuðu bréf í Össuri og Nýherja, um 4,3 prósent og 4,7 prósent. Gerð viðskipti í félögunum tveimur voru þó með minnsta móti og mun lægri fjárhæðir í spilunum en hjá öðrum félögum, þar sem viðskipti voru töluverð. Alls nam velta með bréf í Össuri um 23 milljónum og aðeins voru gerð samtals þriggja milljóna króna viðskipti með bréf Nýherja.
Mest var sýslað með hlutabréf í Icelandair Group í dag, eða fyrir samtals 1.343 milljónir króna. Bréf félagsins höfðu lækkað um nærri fimm prósent um miðjan viðskiptadag, en réttu töluvert úr kútnum eins og önnur félög. Bréf félagsins lækkuðu á endanum 2,5 prósent frá lokagengi síðasta föstudag. Önnur félög í Kauphöll, sem samtals eru sextán talsins, lækkuðu á bilinu 0,7 til 3,5 prósent. Velta nam allt frá 155 milljónum til nærri fjögur hundruð milljóna króna með hlutabréf í hverju félagi.
Þrátt fyrir mikla lækkun á innlendum hlutabréfamarkaði í dag, þá hefur úrvalsvísitalan hækkað um ríflega sautján prósent frá áramótum.
Breyting á verði hlutabréfa í Kauphöllinni í dag, 24. ágúst 2015. Úrvalsvísitalan OMXI8 lækkaði um 2,5 prósent.
Þróun hlutabréfaverðs í Kauphöllinni var í takt við þróun á mörkuðum erlendis, sem hófst á miklu verðfalli í Kína um 8,5 prósent. Í Evrópu lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur mikið í dag og upplifðu fjárfestar á meginlandinu mestu lækkanir á einu degi síðan 2011. Sama var uppi á tengingnum í Bandaríkjunum þegar viðksipti hófust þar en verðfall hlutabréfa þar hefur þó að nokkru leitað til baka eftir því sem liðið hefur á viðskiptadaginn.
European markets close weighed down by heavy losses across the board: http://t.co/jSAN1ice48 pic.twitter.com/6rioDFpYJn
— CNBC (@CNBC) August 24, 2015