Matvælastofnun hyggst rannsaka aðbúnað tólf hrossa sem drukknuðu í Bessastaðatjörn, að því er talið er á þriðjudaginn þegar mikið óveður gekk yfir Suðvesturhorn landsins. Þetta staðfestir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun í samtali við Kjarnan. Hún segir að málið verði rannsakað heildstætt með hliðsjón af reglugerð um velferð hrossa.
Hrossin voru á svokallaðari haustbeit en sjö þeirra voru í eigu Íshesta og fimm í eigu félaga í Hestamannafélaginu Sóta. Hrossin fundust dauð í Bessastaðatjörn í gær, en grunnsemdir vöknuðu um að ekki væri allt með felldu eftir smölun á laugardaginn.
Matvælastofnun hyggst, eins og áður segir, rannsaka hvort aðbúnaður hrossanna hafi uppfyllt reglugerð um velferð hrossa. Í 18. grein reglugerðarinnar, er fjallar um útigang hrossa, segir orðrétt: „Hross sem ganga úti skulu geta leitað skjóls fyrir veðri og vindum. Þar sem fullnægjandi náttúrulegt skjól, svo sem skjólbelti, klettar og hæðir, eru ekki fyrir hendi skulu hross hafa aðgang að manngerðum skjólveggjum sem mynda skjól úr helstu áttum. Hver skjólveggur skal að lágmarki vera 2 metrar á hæð og svo langur að öll hross hjarðarinnar fái notið skjóls. Skjólveggir skulu byggðir þannig að þeir valdi ekki slysahættu né hræðslu hjá hrossum. Við eftirlit og mat á aðbúnaði hrossa á útigangi, svo sem hrossaskjól, skal litið heildstætt á þá þætti sem hafa áhrif á velferð hjarðarinnar svo sem fóðurástand, landgæði, skjól og veðurfar á svæðinu.“
Í frétt sem birtist á fréttasíðunni mbl.is í gær var haft eftir Einari Þór Jóhannssyni, umsjónarmanni hesthúsa Íshesta, að hann telji líklegt að slysið hafi átt sér stað í áðurnefndu óveðri á þriðjudaginn. Þá hefur vefmiðillinn Vísir orðrétt eftir Einari Bollasyni hjá Íshestum: „Það er ekki nema rúm vika síðan menn voru að gá að hestunum, þar af starfsmaður frá okkur, og allt var í toppstandi. Þannig að þetta hefur gerst einhvern síðustu daga.“ Samkvæmt áðurnefndri reglugerð um velferð hrossa hvað varðar eigið eftirlit, segir að hafa skuli vikulegt eftirlit með hrossum sem ganga úti á beit eða á gjöf. Matvælastofnun hyggst einnig kanna hvort eftirlit með hrossunum á Álftanesi hafi uppfyllt þetta ákvæði.
Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar um velferð hross og hefur sömuleiðis eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt.