Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það áhyggjuefni hversu hægt hefur gengið fyrir stjórnvöld að lækka opinberar skuldir og lækka vaxtakostnað en samkvæmt fjárlögum fyrir næst ár er áætlað að ríkið greiði 85 milljarða króna í vexti. Það er upphæð sem nemur um þriðjungi af öllum útgjöldum ríkisins á ári til heilbrigðismála.
Í hlaðvarpsþættinum Kvikunni, þar sem Þorsteinn er gestur ásamt Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur, forstjóra VÍS, segir hann það vera á vissan hátt vonbrigði að ekki sé enn búið að fara í „uppskurð“ á rekstri ríkisins með það að markmiði að lækka skuldir og þar með vaxtakostnað ríkissjóðs. Fjárlögin sem nú hafa verið lögð fram á Alþingi fyrir næsta ár sýni ekki stefnubreytingu frá því sem verið hefur hvað þetta varðar.
„Mín kynslóð og foreldra minna hefur gengið í gegnum eina mestu auðsöfnun sem kynslóð á Íslandi hefur gengið í gegnum. Lífskjör okkar langt um betri en kynslóðirnar á undan okkur fengu að kynnast, en samt erum við með risavaxinn yfirdrátt sem við ætlum að senda börnunum okkar. Það er ekki ásættanlegt,“ segir Þorsteinn.
Hlusta má á þáttinn hér í meðfylgjandi frétt, og einnig inn á hlaðvarpsstraumi Kjarnans.