Nú er nýlokið blaðamannafundi stjórnvalda í Hörpu þar sem niðurstaða leiðréttingarinnar svokölluðu var kynnt blaðamönnum og almenningi. Þar kom fram að 91.000 einstaklingar fái skuldaleiðréttingu, og meðal fjárhæð leiðréttingarinnar verði 1.350.000 krónur. Meðaltal hjóna er 1.510.000 krónur og hver einstaklingur fær 1.100.000 krónur að jafnaði. Niðurstaða um 90% umsókna verður birt á morgun en ekki er unnt að birta um 10% vegna ýmissa ástæðna er snúa að högum umsækjenda. Til stendur að birta þær niðurstöður innan skamms.
Aðgerðunum flýtt um eitt ár
Þá kom fram á fundinum að fjármögnun á heildaraðgerðunum, það er bein niðurfærsla á höfuðstóli verðtryggðra lána og skattleysi við innborgun séreignarlífeyrissparnaðar inn á fasteignalán, hafi verið flýtt um eitt ár og henni verði að fullu lokið árið 2016. Það tryggir betri nýtingu fjármuna sem ella hefðu farið í vaxtagreiðslur til fjármálastofnana og gerir stjórnvöldum kleift að greiða hærri fjárhæðir inn á höfuðstól lána. Verða 40 milljarðar greiddir inn á leiðréttingarlánin á þessu ári, 20 milljarðar í upphafi næsta árs og 20 milljarðar í byrjun árs 2016.
Verðbólga umfram 4 prósent á árunum 2008 og 2009 leiðrétt
Beinar höfuðstólslækkanir munu þannig kosta ríkissjóð um 80 milljarða króna, en við upphæðina bætast 20 milljarðar sem ríkissjóður verður af í formi skattgreiðslna vegna útgreiðslu séreignalífeyrissparnaðar. Þá er gert ráð fyrir sjötíu milljörðum króna í skattleysi við innborgun séreignalífeyrissparnaðar, en um 30.000 einstaklingar hafa sótt um það úrræði í dag.
Á blaðamannafundinum kom jafnframt fram að öll verðbólga umfram fjögur prósent, á árunum 2008 til 2009, verði leiðrétt við fullnýtingu leiðréttingarinnar, það er niðurfærsla höfuðstóls.
Viðtökur framar væntingum stjórnvalda
Þá verða leiðréttingarlán, það er höfuðstólsleiðréttingin sjálf, afskrifuð að fullu á rúmu ári en ekki fjórum árum eins og upphaflega var kynnt.
Í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundinum í dag kom fram að hlutfall umsókna frá þeim sem eigi rétt á leiðréttingu væri að nálgast 100 prósent. Viðtökurnar væru framar væntingum stjórnvalda.
Hægt er að horfa á myndband stjórnvalda um útreikning og samþykkt leiðréttingar hér að neðan.