Magnús Þór Jónsson, Megas, er sjötugur í dag, og hafa ljóð hans og tónlist verið mikið til umræðu í tilefni þess, ekki síst í dagskrárgerð RÚV. Þá birtist ítarlegt viðtal við Megas í Fréttablaðinu um helgina, þar sem farið var yfir feril hans og hugðarefni.
Hilmar Örn Hilmarsson, tónskáld, segir Megas „ótrúlegan hæfileikamann“ en þeir félagar hafa oft unnið saman á ferli Megasar, við plötuútgáfu, ljóðalestur, upptökur, tónsmíðar og tónleikahald.
Hilmar Örn segir að samvinna með Megasi sé eins og fara í „Svarta skóla“, svo göldróttur sé hann þegar komi að listinni. „Megas býr til melódíur eins og að smella fingri, og getur einnig verið með ólíkindum afkastamikill þegar hann er að vinna. Satt best að segja er hann alveg ótrúlegur, og það hefur verið gaman að sjá fólk uppgvöta hann sem listamann æ betur í seinni tíð. Ekki aðeins sem textahöfund, heldur ekki síður sem tónskáld,“ segir Hilmar Örn.
Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld. Mynd: IcelandicFilms.
Megas hefur komið að margvíslegum tón- og textasmíðum á sínum ferli, og segir Hilmar Örn fjölbreytileikann vera honum í blóð borinn. „Hann er vitaskuld einstakur textasmiður, en hann er líka ofboðslega næmt og gott tónskáld. Sem útsetjari, alveg niður í nótnaskrif og djúpar pælingar um tónlistina og texta, er hann algjörlega framúrskarandi. Hann er sannkölluð þjóðargersemi sem listamaður,“ segir Hilmar Örn.
Megas fæddist 7. apríl 1945, sonur skáldkonunnar Þórunnar Elfu Magnúsdóttur og Jóns Þórðarsonar kennara og rithöfundar. Hann á meira en 50 ára feril að baki sem listamaður.
Hann ólst upp í Noðurmýrinni í Reykjavík og gekk í Austurbæjarskólann og svo Menntaskólann í Reykjavík. Megas féll fyrir „Halldóri Laxness eins og poppstjörnu þegar hann las Gerplu í útvarpið“ segir á vef RÚV. Einn af helstu áhrifavöldum Megasar hefur alla tíð verið Bob Dylan.
Hér má heyra eitt af lögum Megasar, Tvær stjörnur.
https://www.youtube.com/watch?v=9OPFKMy7og0