Meirihluti Íslendinga er andvígur því að ríkið selji eignarhluti sína í Landsbankanum, Landsvirkjun og Ríkisútvarpinu, samkvæmt nýrri könnun MMR.
Af þeim sem tóku afstöðu sögðust nú 41,5 prósent fylgjandi því að ríkið selji eignarhlut sinn í Landsbankanum, borið saman við 45,6 prósent í janúar 2013. Tæp 29 prósent sögðust fylgjandi því að ríkið selji eignarhlut sinn í Ríkisútvarpinu nú, samanborið við 22,8 prósent í janúar 2013. Aðeins voru 13,2 prósent fylgjandi því að ríkið myndi selja eignarhlut sinn í Landsvirkjun nú, borið saman við 19,6 prósent í janúar 2012.
Þeir sem styðja ríkisstjórnina eru almennt hlynntari einkavæðingu ríkisfyrirtækja, að því er fram kemur í niðurstöðum MMR. Hlutfallslega fleiri stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sögðust vilja einkavæða Ríkistútvarpið, en af þeim sem tóku afstöðu og styðja ríkisstjórnina, sögðust 45,2 prósenta vera fylgjandi því að einkavæða RÚV, borið saman við 19,6 prósent þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina.
Þá vildu hlutfallslega flestir þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn einkavæða fyrirtækin þrjú. Af þeim sem tóku afstöðu og styðja Sjálfstæðisflokkinn sögðust 59,2 prósent fylgjandi því að ríkið selji eignarhlut sinn í Landsbankanum, borið saman við 18,3 prósent Vinstri grænna. Tæplega 51 prósent sjálfstæðismanna fylgjandi því að ríkið selji eignarhlut sinn í Ríkisútvarpinu, borið saman við 11,7 prósent Vinstri grænna. Þá voru 20,3 prósent kjósenda sjálfstæðisflokksins fylgjandi því að ríkið selji eignarhlut sinn í Landsvirkjun, samanborið við 4,1 prósent þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn.
Könnun MMR var framkvæmd dagana 13. til 19. janúar, og tóku 975 einstaklingar þátt í könnuninni.