Meirihluti Íslendinga er yfir kjörþyngd og konur á landsbyggðinni eru líklegri til að vera of þungar heldur en konur á höfuðborgarsvæðinu. Þetta leiddi rannsókn í ljós sem fjallað erum í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna holdafar og mataræði íslenskra kvenna og karla eftir búsetu.
Þátttakendur í rannsókninni voru 1312 konur og karlar, 18-80 ára, sem voru valin með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Heildarsvörun í könnuninni var 68,6%.
Mataræði þáttakenda var kannað árin 2010 til 2011 með tvítekinni sólarhringsupprifjun og jafnframt var spurt um hæð og þyngd, auk bakgrunnsspurninga. „Reiknað var líkindahlutfall (OR) þess að vera yfir kjörþyngd (líkamsþyngdarstuðull ≥25 kg/m2) út frá búsetu og menntun,“ segir orðrétt í umfjöllun Læknablaðsins um rannsókninni.
Hlutfall fullorðinna karla og kvenna yfir kjörþyngd, hefur aukist undanfarin ár. Árið 1990 var það 37 prósent en árið 2012 64 prósent.