57 prósent aðspurðra í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins segjast telja rétt að hluti þeirra fjármuna, sem ætlað er að fáist frá kröfuhöfum í gegnum áætlun um losun hafta, verði notaður til þess að byggja nýjan spítala á Íslandi. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
25 prósent sögðust ekki vilja að féð væri nýtt í byggingu nýs spítala, 17 prósent voru óákveðin og 2 prósent svöruðu ekki.
Ef litið var einungis til þeirra sem tóku afstöðu voru 69 prósent fylgjandi því að nýta peninga í byggingu spítala, en 31 prósent voru því andvíg.
Stjórnvöld hafa greint frá því að greiða eigi niður skuldir ríkissjóðs með framlagi slitabúa gömlu bankanna. Samkvæmt útreikningum Kjarnans, sem sérfræðingar hafa farið yfir, gætu samningar milli stjórnvalda og kröfuhafa skilað ríkinu á bilinu 300 til 400 milljörðum króna miðað við þau skilyrði sem liggja til grundvallar í dag.
Með því að borga niður skuldir mun vaxtakostnaður ríkisins, sem er í ár áætlaður 77 milljarðar króna, lækkað um þriðjung. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, bendir einnig á þetta í samtali við Fréttablaðið í dag. „Við erum að tala um það að árlegur vaxtakostnaður getur lækkað um 30 milljarða, hugsanlega meira. Og það er nú bara helmingurinn af byggingarkostnaði við spítala,“ segir Guðlaugur, og segir mikinn vilja til að byggja nýjan spítala og fólk líti á það sem forgangsmál. Engu að síður segir hann að það sé nauðsynlegt að nýta það fé sem fæst úr aðgerðunum til þess að lækka skuldir.