Menntun skiptir minna máli þegar kemur að launum fyrir vinnu á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi. Þeir sem hafa eingöngu lokið grunnmenntun hérlendis voru með 86,3 prósent af ráðstöfunartekjum þeirra sem höfðu lokið háskólaprófi árið 2013. Í næstu sætum á eftir Íslandi eru Svíþjíoð (80,3 prósent), Noregur (77 prósent) og Holland (73,6 prósent). Ísland er í 15 sæti yfir ráðstöfunartekjur háskólamenntaðra í Evrópu en í fjórða sæti yfir ráðstöfunartekjur þeirra sem eingöngu hafa lokið grunnmentun. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan birti í morgun.
Hagstofan á síðan tölur fyrir Ísland frá því í fyrra. Þar hefur gildi menntunar fyrir launaumslagið dregist enn meira saman. Árið 2014 voru þeir sem voru með grunnmenntun með 87,7 prósent ráðstöfunartekna háskólamenntaðra. Þetta bil hefur minnkað hratt frá því að lífskjararannsókn Hagstofunnar var fyrst framkvæmd árið 2004, en þá voru ráðstöfunartekjur þeirra sem eru ekki með háskólamenntun 79,7 prósent. Á sama tímabili fóru tekjur fólks með framhalds- eða starfsmenntun úr 84,5 prósent af tekjum háskólamenntaðra í 91,6 prósent. Munur á ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra og annarra hópa var nokkuð stöðugur til ársins 2010 en hefur síðan farið minnkandi.