Hagamelur ehf., félag í eigu fjárfestanna Árna Haukssonar, Hallbjörns Karlssonar og Sigurbjörns Þorkelssonar, seldi á mánudag 6,6 prósenta hlut í smásölurisanum Högum. Með sölunni innleystu þeir um 2,3 milljarða króna hreinan hagnað á fjárfestingu sinni í félaginu, en tæp þrjú ár eru síðan þeir lögðu út í hana. Hagamelur á enn tæplega 1,6 prósenta hlut. Sá hlutur er metinn á tæplega 800 milljónir króna, sem er svipuð upphæð og þeir fjárfestu upprunalega í Högum.
Um er að ræða mesta hagnað sem einkafjárfestir hefur innleyst frá hruni vegna hlutabréfaviðskipta. Fyrri stórar hagnaðarsölur, til dæmis með bréf í Icelandair, hafa flestar verið þannig að Framtakssjóður Íslands, að mestu í eigu lífeyrissjóða, hefur verið að selja lífeyrissjóðunum sem eiga sjóðinn. Þannig hafa peningar verið færðir úr einum vasa í annan.
Það kemur væntanlega engum á óvart að það voru að mestu lífeyrissjóðir sem keyptu hlut Hagamels í Högum. Mest keypti Lífeyrissjóður verslunarmanna, en hann borgaði um 1,7 milljarða króna fyrir um 3,4 prósenta hlut.
Þetta er örstutt útgáfa af ítarlegri umfjöllun um sölu á bréfum í Högum. Lestu hana í heild sinni í nýjasta Kjarnanum.