Hagvöxtur á Íslandi hefur ekki mælst meiri á fyrri helmingi árs síðan 2007. Samkvæmt mælingum Hagstofunnar nam vöxtur landsframleiðslu 5,2 prósentum á fyrri helmingi árs 2015. Er það talsvert umfram spá Seðlabankans fyrir árið í heild, en í nýjustu spá bankans frá síðasta mánuði er búist við að hagvöxtur í ár yrði 4,2 prósent.
Greining Íslandsbanka bendir á þetta í dag en Hagstofan greindi í morgun frá hagvexti á fyrstu sex mánuðum ársins. Greining Íslandsbanka segir að kröftugur vöxtur í útflutningi á fyrri helmingi árs skýri mestan muninn á spá Seðlabankans og niðurstöðu fyrsta árshelmings. Ljóst er að Peningastefnunefnd Seðlabankans mun taka tillit til kröftugs hagvaxtar þegar hún kemur saman undir lok þessa mánaðar við ákvörðun stýrivaxta, segir greiningardeild Íslandsbanka.
Umfram allar spár
„Hagvöxtur á fyrri árshelmingi er einnig umfram okkar nýjustu spá sem birt var í maí sl. en hún hljóðar upp á 4,0% hagvöxt í ár. Einnig er þessi hagvöxtur talsvert umfram það sem Hagstofan spáir, en sú er lögð til grundvallar í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi. Þar reiknar stofnunin með 3,8% hagvexti í ár,“ segir í Morgunpósti greiningardeildar bankans í dag.
Þar segir að hagvöxtur á fyrri helmingi árs sé á nokkuð breiðum grunni. Mikill vöxtur sé í einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi en vöxtur einkaneyslu mældist 4,4 prósent á fyrri hluta árs. Það er mesti vöxtur einkaneyslu á fyrri árshelmingi síðan 2006. „Ljóst er að bætt fjárhagsstaða heimilanna, m.a. vegna vaxtar í kaupmætti ráðstöfunartekna, er að skila þessum mikla vexti. Er vöxtur einkaneyslu nokkuð nálægt því sem bæði við og Seðlabankinn spáum fyrir árið í heild en okkar spá hljóðar upp á 4,6% en spá Seðlabankans 4,2%.“
Umfjöllun greiningardeildar Íslandsbanka í heild má lesa hér.