Kvikmyndagerðarmaðurinn og þjóðfélagsrýnirinn Michael Moore, sem kom hingað til lands síðastliðinn föstudag, er farinn af landi brott. Eins og sést á meðfylgjandi mynd var Moore í flugstöð Leifs Eiríkssonar,en myndin var tekin fyrr í dag.
Mikil leynd hefur hvílt yfir ástæðum þess að Moore var staddur hérlendis, en ljóst er að um vinnuferð var að ræða. Upphaflega héldu íslenskir fjölmiðlar því fram að hann væri að vinna að heimildarmynd um íslenska heilbrigðiskerfið en það reyndist ekki rétt. Á meðal þeirra sem Moore fundaði með á meðan að á tveggja daga dvöl hans stóð voru Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur og Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata. Þá greindi Eggert Skúlason, ritstjóri DV, frá því í þættinum Vikulokunum á Rás 2 í gær að Moore hefði vakið hann með símtali þá um morguninn og til stæði að þeir ættu fund síðdegis í gær. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans varð ekkert af þeim fundi.
meanwhile in Reykjavik... @frostignarr @MMFlint pic.twitter.com/ef52sxqmy5
Auglýsing
— Jon Gnarr (@Jon_Gnarr) May 8, 2015
Einn áhrifamesti maður í heimi árið 2005
Moore er einn þekktasti heimildamyndagerðarmaður í heimi og og vakti fyrst athygli fyrir myndina Roger and Me, sem fjallað um áhrif þess þegar General Motors lokaði verksmiðjum sínum í heimaborg Moore, Flint í Michigan-fylki. Hann hlaut síðan Óskarsverðlaun fyrir heimildarmyndina Bowling for Columbine, sem fjallaði um hræðileg fjöldamorð tveggja skólapilta í bænum Columbine og byssumenninguna í Bandaríkjunum.
https://www.youtube.com/watch?v=M7Is43K6lrg
Árið 2004 kom svo út myndin Fahrenheit 9/11, sem fjallar um Bandaríkin í kjölfar árásanna sem áttu sér stað 11. september 2011. Sérstöku ljósi var beint að George W. Bush, forseta landsins, og sambandi fjölskyldu hans við Osama Bin Laden, sem bar ábyrgð á árásunum. Myndin var gríðarlega umdeild en feykivinsæl og fékk meðal annars æðstu verðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, Gullpálmann. Fahrenheit 9/11 er enn þann dag í dag sú heimildarmynd sem hefur halað inn mestar tekjur í sögunni, en í ágúst 2012 hafði hún tekið inn meira en 200 milljónir dala, um 26,4 milljarða króna. Árið 2005, þegar athyglin vegna Fahrenheit 9/11 var sem mest, var Moore á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamesta fólk í heimi.
Þekktustu myndir sem Moore hefur gert síðan eru Sicko og Capitalism: A love story. Hann hefur auk þess skrifað fjölmargar bækur og gert þrjár sjónvarpsþáttaraðir.