Sjávarútvegsfyrirtækið Arctic Oddi á Flateyri hefur sagt upp tíu starfsmönnum, en samkvæmt heimildum Kjarnans stendur til að segja fimm starfsmönnum upp störfum til viðbótar. Framkvæmdastjórara Arctic Odda var sagt upp á dögunum, fjórum var sagt upp á miðvikudaginn, og fimm misstu vinnuna á föstudaginn.
Hjá Arctic Odda hafa starfað um þrjátíu manns, þannig að fyrirtækið er að fækka starfsmönnum sínum um helming. Heimildir Kjarnans herma að fyrirtækið hyggist segja upp nær öllu starfsfólki sínu á næstu mánuðum, og loka fiskvinnslu sinni á Flateyri, í það minnsta tímabundið. Þá verður skrifstofa fyrirtækisins flutt frá Flateyri til Reykjavíkur.
Samkvæmt heimildum mbl.is stendur sömuleiðis til að selja skip í eigu Vestfirðings, sem er útgerðarfélag í eigu sömu aðila og eiga Arctic Odda, en þá munu fimm starfsmenn til viðbótar missa vinnuna.
"Við höfum fengið mjög misvísandi skilaboð frá fyrirtækinu. Þessar uppsagnir vekja upp stórar spurningar sem við verðum að fá svör við. Hvað ætla þessir menn í raun og veru að gera?"
Bæjaryfirvöld óupplýst um uppsagnir
Í samtali við Kjarnann kveðst Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, ekkert hafa heyrt af uppsögnunum frá sjávarútvegsfyrirtækinu. "Ég er búinn að senda stjórnarformanninum tölvupóst til að forvitnast um málið, og svo verð ég í sambandi við Verkalýðsfélag Vestfirðinga í dag vegna málsins," segir Gísli Halldór. Hann segir sjávarútvegsfyrirtækið hafa fullvissað bæjaryfirvöld Ísafjarðarbæjar og fulltrúa frá Byggðastofnun á fundi á þriðjudaginn, að ekki stæði til að ráðast í hópuppsagnir hjá fyrirtækinu um mánaðarmótin, þannig að fréttir af uppsögnum hjá Arctic Odda komi mjög á óvart og séu beinlínis í andstöðu við yfirlýsingar fyrirtækisins. "Við höfum fengið mjög misvísandi skilaboð frá fyrirtækinu. Þessar uppsagnir vekja upp stórar spurningar sem við verðum að fá svör við. Hvað ætla þessir menn í raun og veru að gera? Þetta eru mjög óþægileg tíðindi, enda stærsti vinnustaðurinn á Flateyri, en auk þess höfðu íbúar bæjarins bundið miklar vonir við að fyrirtækið ætlaði að byggja upp fiskvinnslu á svæðinu."
Byggðastofnun hefur gert forsvarsmönnum Arctic Odda það skýrt að félagið fái ekki úthlutaðan 300 tonna byggðakvóta, nema fyrir liggi framtíðarsýn fyrirtækisins varðandi bolfiskvinnslu á Flateyri. Gísli Halldór segir að fyrirtækið hafi undanfarið unnið að því að tryggja stoðir fiskvinnslunnar, meðal annars með því að leita að samstarfsaðilum. Samhliða bolfiskvinnslu hugðist fyrirtækið vinna eldisfisk, en fyrirtækið hefur undanfarið unnið að uppbyggingu fiskeldis, sem hefur tekið lengri tíma en vonir stóðu til að því er heimildir Kjarnans herma. Í tilkynningu sem Arctic Oddi sendi frá sér um miðjan október hefur fyrirtækinu gengið hægt að fá aukningu eldisleyfa, sem það segir forsendu þess að byggja upp arðbæran rekstur á Flateyri.
Stéttarfélagið gerði athugasemdir við framkomu fyrirtækisins
Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, segir að stéttarfélagið hafi sömuleiðis ekkert heyrt frá Arctic Odda vegna uppsagnanna. Stéttarfélagið gerði athugasemdir við starfsmannafund sem haldinn var hjá fyrirtækinu í október, þar sem starfsmönnum var tilkynnt um að mögulega yrði ráðist í uppsagnir. "Við höfðum samband við fyrirtækið, og gerðum alvarlegar athugasemdir við að starfsfólkið væri skilið eftir í svo mikilli óvissu og raun ber vitni." Fulltrúar stéttarfélagsins voru viðstaddir annan starfsmannafund sem boðað var til 22. október síðastliðinn, þar sem fyrirtækið tilkynnti að það myndi mögulega hætta bolfiskvinnslu á staðnum, en það myndi skýrast í lok mánaðarins. "Við furðum okkur á því að hafa ekkert heyrt frá fyrirtækinu, því við lítum klárlega á þetta sem hópuppsögn þó fyrirtækið sé að segja upp fólki í skömmtum."
"Ef satt reynist þá er þetta enn ein birtingamynd frjáls framsals aflaheimilda í sinni verstu mynd. Við erum með gjöfulustu fiskimiðin hér úti fyrir túnfætinum, öll tæki og tól til vinnslu, en engar heimildir til að veiða," segir Finnbogi í samtali við Kjarnann.
Arctic Oddi hyggst nú einbeita sér að kjarnastarfsemi fyrirtækisins, það er fiskeldi. Fyrirtækið hefur eldisfisk til vinnslu fram að áramótum, en fær ekki aftur eldisfisk til slátrunar og vinnslu fyrr en í nóvember á næsta ári, samkvæmt heimildum Kjarnans. Ekki náðist í Sigurð Pétursson, aðaleiganda Arctic Odda, við vinnslu fréttarinnar og engar upplýsingar fengust uppgefnar á skrifstofu félagsins á Flateyri.