Stjórnvöld vinna nú að undirbúningi þess að selja stóran hlut í Landsbankanum og skrá hann á markað samhliða, að því er fram hefur komið í máli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem nú er til meðferðar á Alþingi, kemur fram að stjórnvöld reikni með því að fá um 71 milljarð króna fyrir um 30 prósent hlut í Bankanum. Ríkið er langsamlega stærsti hluthafi bankans, með um 98 prósent hlut.
Mikil verðmæti hafa byggst upp í bankanum, frá því hann var stofnaður, á grunni innlendrar starfsemi hins gamla Landsbanka sem féll 7. október 2008. Eigið fé bankans, sem er stærsti banki landsins, er nú um 250 milljarðar króna. Um 113 þúsund einstaklingar eru í viðskiptum við bankann og meira en ellefu þúsund fyrirtæki.
Starfsmenn Landsbankans eiga samtals um eitt prósent hlut, en virði hans, sé miðað við eigið fé sem heildarvirði, nemur 2,5 milljörðum króna. Þeir starfsmenn bankans sem eiga flesta hluti, af þeim sem komu til skiptanna fyrir starfsmenn miðað við samþykkt hluthafafundar bankans frá 17. júlí 2013, eru Hreiðar Bjarnason, Helgi Teitur Helgason og Árni Þór Þorbjörnsson, en þeir áttu allir 528.732 hluti í lok árs í fyrra, eins og greint var frá á vef Kjarnans í gær.
Samtals eiga um 1.400 starfsmenn Landsbankans hlut í bankanum, en sjá má upplýsingar um skiptingu þeirra eignarhluta niður á starfsmenn, miðað við stöðu mála í lok síðasta árs, hér. Starfsmenn sem fengu hlutabréf í bankanum gefins, gerðu það með skilyrðum, um að óheimilt væri að selja bréfin fyrr en eftir þrjú ár frá afhendingu, en hluta þeirra má selja fyrr, komi til þess að bankinn verði skráður á markað, eins og stendur nú til.
Afhending hlutabréfanna bygðist á samningi frá 15. desember 2009 en þá gerðu Landsbankinn og LBI hf. , það er kröfuhafar eða slitabú gamla Landsbankans, og Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, samning um fjárhagsuppgjör milli Landsbankans hf. og slitabússins. Með samþykki ríkisins var Landsbankanum gert að koma á árangurstengdu launakerfi fyrir starfsmenn Landsbankans hf. og setti íslenska ríkið skilyrði um að það næði til allra starfsmanna. Kerfið skyldi taka mið af verðmæti tiltekinna eignasafna stærri fyrirtækja sem lágu til grundvallar ákvörðunar á fjárhæð skilyrts skuldabréfs sem er hluti af fjárhagsuppgjörinu. Niðurstaða verðmats óháðs ytri aðila var að gefa skyldi út skilyrta skuldabréfið miðað við hámarksfjárhæð þess.
Hlutabréfin voru afhent starfsmönnum Landsbankans og Landsbréfa, dótturfélagi bankans, sem voru fastráðnir þann 31. mars 2013 og þeim sem látið hafa af störfum vegna aldurs, örorku eða verið sagt upp í hagræðingarskyn, af því er fram kom á vef bankans. Fjöldi afhentra hluta til hvers og eins starfsmanns miðast við föst laun og þann tíma sem viðkomandi hefur starfað hjá Landsbankanum frá 15. desember 2009 til 31. mars 2013.