Hörður Felix Harðarsson, lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, segir dóm Hæstaréttar í Al-Thani málinu vera mikil vonbrigði. Hann ætlar ekki að tjá sig meira um málið. Aðrir lögmenn sakborninga, þeirra Sigurðar Einarssonar, Ólafs Ólafssonar og Magnúsar Guðmundssonar, tjáðu sig ekki um niðurstöðuna. Sakborningarnir sjálfir voru ekki viðstaddir dómsuppkvaðningu í Hæstarétti.
Mennirnir fjórir voru allir dæmdir sekir í málinu í Hæstarétti í dag. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár. Dómur Hreiðars Más var því staðfestur í Hæstarétti, dómur Sigurðar mildaður um eitt ár, en dómar Ólafs og Magnúsar voru þyngdir.
Al-Thani málið, sem er eitt umfangsmesta efnahagsbrotamál sem komið hefur á borð dómstóla hér á landi, á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani frá Katar hinn 22. september 2008 en félag hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða króna með láni frá bankanum. Al-Thani er yngri bróðir emírsins í Katar en hann var persónulegur vinur Ólafs Ólafssonar þegar málið komið upp.