Sjónvarpsáhorf á karlalandsleiki í knattspyrnu mælist mun meira á Íslandi en í nágrannaríkjunum Danmörku, Noregi og Svíþjóð, samkvæmt mælingum birtingafyrirtæksins MediaCom á Íslandi. Meðaláhorf á leiki Íslands gegn Hollandi og Kasakstan fyrr í september mældist nærri fimmtíu prósent. Yfir 90 prósent þeirra sem voru að horfa á sjónvarpið á þessum tíma dags voru að horfa á leikina tvo.
Eins og kunnugt er þá lagði Ísland lið Hollendinga að velli með einu marki gegn engu fimmtudaginn 3. september síðastliðinn og tryggði sér síðan þátttökurétt á lokamóti Evrópumótsins á sunnudeginum eftir með markalausu jafntefli gegn Kasakstan.
Næstir á eftir Íslendingum í fótboltaglápi á landslið koma Danir. Meðaláhorf á leiki danska liðsins mælist 20 til 30 prósent. Meðaláhorf á síðustu þrjá leiki Svía og Norðmanna hefur verið öllu lægra, eða á bilinu 11 til 16 prósent.
Kjarninn fékk gögn frá MediaCom á Íslandi sem sýna samanburð á sjónvarpsáhorfi á landsleiki milli landanna. Um er að ræða þrjá síðustu leiki liðanna í undankeppni Evrópumótsins, leiknir í júní og september. Tölurnar má sjá hér fyrir neðan.