Miklu meira nikótín er í íslensku neftóbaki, hinum svokallaða "Rudda", en í vinsælasta sænska munntóbakinu General, eða 115 prósent meira. Af þessu má ráða að notendur íslenska neftóbaksins, sem er mjög mikið notað sem munntóbak, séu að fá mun meira af nikótíni en þeir sem nota það sænska. Þetta kemur fram í DV í dag, en blaðið fékk upplýsingar um innihaldsefni íslenska neftóbaksins frá Landlæknaembættinu. Í blaðinu segir að fyrirspurn þess í janúarmánuði hafi leitt í ljós að ÁTVR, sem framleiðir og dreifir íslenska munntóbakinu, hafi aldei sinni þeirri skyldu sinni að upplýsa Landlæknaembættið um innihaldslýsingarnar.
Alls er magn nikótíns í íslenska neftóbakinu 2,8 prósent en 0,75 prósent í General snusinu sænska. Munurinn er 115 prósent. Innihald íslenska neftóbaksins er að hrátóbak, sem er flutt inn frá Svíþjóð, vatn, pottaska, salt og ammóníak. Mun minna af krabbameinsvaldandi efnum er í íslenska tóbakinu en því sænska.
Fjórföldun á veltu vegna „Rudda“
Sala á íslensku neftóbaki hefur aukist gífurlega á undanförnum árum. Árið 1996 var fínkornað munn- og neftóbak bannað með lögum á Íslandi. Það þýðir að neftóbakið sem ÁTVR framleiðir hefur verið í nánast einokunarstöðu á markaðnum síðan lögin voru sett. Samhliða hefur neysla á munntóbaki aukist töluvert og þeir sem neyta þess kaupa annaðhvort smyglvarning á svörtum markaði, þar sem er mikið framboð, eða nota neftóbakið sem ÁTVR framleiðir, hinn svokallaða „Rudda“, sem munntóbak.
Kjarninn greindi frá því í ágúst að þessi aukna neysla hefur skilað auknum tekjum í vasa hins opinbera svo um munar, bæði vegna hækkunar á tóbaksgjaldi og stóraukinnar eftirspurnar. Tóbaksgjald á neftóbak hækkaði til að mynda um 100 prósent 1. janúar 2013. Meðalútsöluverð á tóbaksdós af „Rudda“ er, samkvæmt lauslegri könnun Kjarnans, tæplega 2.000 krónur.
Þriðjungur tekna ÁTVR á árinu 2013, 9,1 milljarður króna, kom til vegna tóbakssölu. Þar skiptir sala á sígarettum stærstu máli en hlutur sölu á íslensku neftóbaki hefur stóraukist á undanförnum árum samhliða meiri neyslu.