Einkarekin heilsugæslustöð, Heilsugæslan Höfða, þurfti að leita á náðir úrskurðarnefndar um upplýsingamál til þess að fá afhent minnisblöð sem Sjúkratryggingar Íslands tóku saman á síðasta ári og stíluðu á heilbrigðisráðuneytið. Sjúkratryggingar höfðu neitað að afhenda gögnin og báru því meðal annars við að afhending minnisblaðanna gæti haft áhrif á samningsstöðu ríkisins í samningaviðræðum við einkareknar heilsugæslustöðvar.
Í minnisblöðunum, sem Kjarninn fékk afhent frá heilbrigðisráðuneytinu í kjölfar þess að úrskurðarnefndin skikkaði Sjúkratryggingar til að láta Heilsugæsluna Höfða hafa þau fyrr í sumar, taka Sjúkratryggingar undir nokkuð af þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram af hálfu einkarekinna heilsugæslustöðva á undanförnum misserum, á sama tíma og samningaviðræður ríkisins við einkareknar heilsugæslustöðvar hafa staðið yfir.
Jafnræðis og gagnsæis ekki að fullu gætt, að mati Sjúkratrygginga
Fyrra minnisblaðið var sett fram þann 13. apríl 2021 af hálfu Sjúkratrygginga. Í því fór starfsmaður hjá deild heilbrigðisþjónustu hjá Sjúkratryggingum yfir athugasemdir sem stofnunin hafði fengið frá forsvarsmönnum einkarekinna heilsugæslustöðva, tók undir nokkuð af þeim og óskaði eftir því að hefja samtal við ráðuneytið um þessi mál.
Meðal annars er í minnisblaði Sjúkratrygginga tekið undir gagnrýni á það að starfsfólk ríkisrekinna heilsugæslustöðva innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) hafi fengið sérstaka COVID-umbun, með ákvörðun Alþingis, en ekki starfsfólk einkarekinna heilsugæslustöðva.
Þessar greiðslur fóru framhjá því fjármögnunarlíkani sem notað er fyrir heilsugæslustöðvarnar, en greiðslufyrirkomulagið til heilsugæslustöðva á að vera hið sama óháð rekstrarformi og upphæð greiðslna að ráðast eftir því hversu margir einstaklingar eru skráðir í þjónustu hverrar heilsugæslu.
„Að mati einkarekinna stöðva og SÍ er þessi tilhögun í andstöðu við markmið líkansins um jafnræði og gegnsæi,“ segir í minnisblaði Sjúkratrygginga.
Einnig er gagnrýnt í minnisblaði Sjúkratrygginga að sérstöku viðbótarfjármagni sem Alþingi ákvað að veita til heilsugæslunnar, til eflingar geðheilbrigðisþjónustu í veirufaraldrinum, hafi verið útdeilt utan fjármögnunarlíkansins.
„Þessi ákvörðun vinnur gegn því markmiði líkansins að tryggja jafna dreifingu fjármagns í samræmi við fjölda skjólstæðinga og gagnsæi í dreifingu fjármagns. Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja þá var veitt nokkuð hærra fjármagni til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis pr. skráðan einstakling en til einkarekinna stöðva,“ segir í minnisblaði Sjúkratrygginga.
Auk þess er gagnrýnt í minnisblaðinu að á fjárlögum hvers árs fái Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fé til tækjakaupa, en þetta er sagt ganga gegn markmiðum fjármögnunarlíkansins um að allir sitji við sama borð, óháð rekstrarformi. Sérstök framlög ríkisins til tækja og búnaðar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu nema 62,3 milljónum króna á þessu ári, samkvæmt fjárlögum.
Sjúkratryggingar segja að þetta sé ekki í samræmi við markmið fjármögnunarlíkansins um gegnsæi og jafnræði – „að opinber heilsugæsla fái fé framhjá líkani til tækjakaupa en einkareknar stöðvar þurfi að fjármagna sín tækjakaup af greiðslum sem koma úr líkaninu.“
Samkeppnisstaða ekki jöfnuð eins og í Svíþjóð
Sjúkratryggingar áttu fund með heilbrigðisráðuneytinu vegna þessara mála 12. maí í fyrra, og í kjölfarið sendi stofnunin frá sér annað minnisblað til ráðuneytisins þann 7. júní með nokkrum viðbótarpunktum, þar sem sjónarmið stofnunarinnar til málanna voru rakin.
Í því minnisblaði kemur meðal annars fram að hugmyndin að fjármögnunarlíkaninu sem notast er við í tengslum við rekstur heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu sé fengin frá Svíþjóð og byggi á framkvæmdinni eins og hún hafi verið í héraðinu Vestur-Gautlandi.
Sjúkratryggingar benda á að inni í líkaninu þar séu þættir til þess að jafna samkeppnisstöðu, sem séu ekki til staðar hér. Meðal annars nefnir stofnunin að í Vestur-Gautlandi fái einkareknar stöðvar virðisaukaskattsuppbót sem bætist ofan á greiðslur til þeirra, þar sem þær geti ekki dregið VSK frá í sinni starfsemi. Einnig benda Sjúkratryggingar á að í sænska módelinu sé hið opinbera með eina sjúklingatryggingu fyrir alla rekstraraðila, en þessu sé ekki að skipta hér.
Í því samhengi benda Sjúkratryggingar á að iðgjöld hafi hækkað verulega hjá einkareknum stöðvum í upphafi árs 2021, þegar leghálsskimanir færðust til heilsugæslunnar, þar sem áhætta aukist þegar svo viðkvæmur málaflokkur bætist við. „Þessi útgjöld eru eingöngu hjá einkareknum stöðvum því ríkið kaupir ekki tryggingar fyrir sínar stöðvar,“ segir í minnisblaði Sjúkratrygginga.
Í minnisblaði Sjúkratrygginga segir að skilja hafi mátt á fundinum með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins að „eðlilegt væri að umbuna ríkisreknum stöðvum meira því einkareknar stöðvar væru í flestum tilvikum að greiða hærri laun“ til þess að vega upp á móti þeim fríðindum sem opinberir starfsmenn njóti í formi veikindaréttar, meira atvinnuöryggis og betri lífeyris.
Í minnisblaði Sjúkratrygginga segir þó að stofnuninni sé „ekki kunnugt um að farið hafi fram formleg greining á launagreiðslum heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu þar sem þessi meinti launamunur kemur fram“.
Niðurgreiðsla COVID-launakostnaðar?
Þar er einnig ítrekað, varðandi viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum, að einkareknar heilsugæslustöðvar hafi sent sitt starfsfólk á vaktir til starfa við skimanir eins og aðrar heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins.
„Allur kostnaður vegna viðbúnaðar v. Covid er greiddur utan líkans. Þrátt fyrir fyrirspurnir SÍ bæði til HH og HRN hafa ekki fengist upplýsingar um hvort inni í þeim kostnaði sem greiddur var til HH vegna þessa verkefnis hafi verið greiðslur v. aukins launakostnaðar sem óhjákvæmilega fylgdi verkefninu. Til dæmis þar sem færri hendur voru á stöð til að sinna verkefnum þar og þá aukin yfirvinna ásamt því að vöktum um helgar við skimun fylgir yfirvinna með tilheyrandi kostnaði. Einkareknar stöðvar hafa ekki fengið neinar greiðslur til að mæta auknum launakostnaði vegna þessa verkefnis þrátt fyrir að hafa mannað þessa þjónustu til jafns með HH, jafnt virka daga sem helgar,“ segir í minnisblaði Sjúkratrygginga.
Þar er einnig fjallað um veglega gjöf sem heilsugæslunni barst í kórónuveirufaraldrinum í formi hlífðarbúnaðar, en fram kemur í minnisblaðinu að einungis sumar heilsugæslustöðvar, væntanlega þær opinberu, hafi fengið þeim búnaði úthlutað, sem skekki samkeppnisstöðuna, þar sem búnaðurinn sé mjög dýr.
„Þörf fyrir hann er sá sami hjá öllum stöðvum. Þær stöðvar sem ekki fengu úthlutað af veglegri gjöf þurftu að kaupa allan sinn hlífðarbúnað sjálfar fyrir rekstrarfé sem kemur eingöngu úr módeli. Ef þessi hlífðarbúnaður hefur að mestu farið til miðlægrar þjónustu vegna skimana þá ætti slíkt að koma fram og vera gegnsætt fyrir alla aðila,“ segir í minnisblaði Sjúkratrygginga.
„Megin atriðið í allri þessari umræðu er sá, að með módelinu og þeirri faglegu hugmyndafræði sem það byggir á (höfðatölugreiðslur) er ætlunin að tryggja gegnsæi og janfræði milli aðila sem reka heilsugæslustöðvar. Með því að umbuna einum með viðbótargreiðslum framhjá líkani eða fella niður kostnað hjá einum aðila án þess að það sé bætt upp hjá öðrum þá er verið að skekkja samkeppnisstöðu,“ segir einnig í minnisblaðinu.
Þar er imprað á því að það sé mikilvægt að laga sem fyrst þessa hnökra sem nú eru á módelinu, auk þess að tryggja fjárhagslegan aðskilnað á milli rekstrar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem snýr að rekstri heilsugæslustöðva og annarra verkefna sem heilsugæslan hefur með höndum.