Fiskvinnslufyrirtækið Vísir hefur tilkynnt starfsfólki sínu á Djúpavogi að fyrirtækið muni hætta starfsemi sinni á staðnum um áramót. Vísir lýsti því hins vegar yfir í vor að fyrirtækið ætlaði að halda uppi vinnslu á Djúpavogi í allt að ár, þannig að brotthvarf fyrirtækisins frá staðnum raungerðist fyrr en vonir heimamanna stóðu til. Félagið Búlandstindur, sem var stofnað af heimamönnum á Djúpavogi, mun taka við fiskvinnslu Vísis um næstu áramót. Vísir mun afhenda Búlandstindi fasteignir sínar á Djúpavogi, sem metnar eru á fimmtíu milljónir króna, án endurgjalds verði þar stöðug fiskvinnsla næstu fimm árin. Með gjörningnum verður þeim þrjátíu starfsmönnum sem nú starfa hjá Vísi á Djúpavogi tryggð áframhaldandi atvinna.
Tímasetningin á brotthvarfi Vísis gæti reynst bagaleg fyrir Djúpavog, þar sem reynst getur erfitt að fá aðrar útgerðir á staðinn þegar svo langt er liðið á yfirstandandi fiskveiðiár. Búlandstindur hefur undanfarið unnið að því í samvinnu við bæjaryfirvöld á Djúpavogi.
Högg Djúpavogs mikið
Með brotthvarfi Vísis frá Djúpavogi hverfa rúmlega 3000 tonn af aflaheimildum á þessu ári, en árlega hafa verið unnin um 4000 tonn í bænum. Mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna þessa hljóða upp á 400 tonna aflamark í gegnum Byggðastofnun og 188 tonn af hefðbundnum byggðakvóta, sem getur mest orðið 300 tonn. Af þessu má ljóst vera að högg Djúpavogs vegna brotthvarfs Vísis er þungt. "Það sér hver maður að þetta er hvergi nærri nóg og það að okkur skuli ekki einu sinni úthlutaður fullur byggðakvóti undirstrikar meinbugina sem eru á fiskveiðistjórnunarkerfinu eins og það er í dag," segir Gauti Jóhannesson sveitarstjóri Djúpavogshrepps í samtali við Kjarnann.
Þessa dagana er unnið að endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu og í því sambandi hafa verið viðraðar hugmyndir um að festa aflaheimildir við ákveðin atvinnusvæði eða byggðarlög. "Þær hugmyndir eru allar athygli verðar. Hvaða leiðir sem verða fyrir valinu þá er brýnt að löggjafinn spýti í lófana og geri þær breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem þarf til að tryggja festu í útgerð, fiskvinnslu og búsetu í minni bæjarfélögum um landið sé mönnum alvara með því að halda landinu í byggð. Ef það er ekki markmiðið þá verða menn að hafa pólitískan dug til að segja það," segir sveitarstjóri Djúpavogshrepps.
Vöruflutningabílar óku 144 þúsund kílómetra með aflann í burtu
Samkvæmt frétt Aflafrétta voru um 2.500 tonn af afla flutt með vöruflutningabílum suður til Grindavíkur í fiskvinnslu Vísis í september. Hver flutningatrukkur tekum um 20 tonn af afla, en vegalengdin milli Grindavíkur og Djúpavogs eru 576 kílómetrar. Samkvæmt útreikningum Aflafrétta þurftu því vöruflutningabílarnir að aka 144 þúsund kílómetra í 125 ferðum til að flytja 2.500 tonn af afla til Grindavíkur.
"Djúpivogur hefur verið byggðarlag í sókn, íbúum hefur fjölgað undanfarin ár, hér er hæsta hlutfall barna á leikskólaaldri í landinu, skuldastaðan er undir viðmiðum sveitarstjórnarlaga og atvinnulíf hefur verið með ágætum. Heilbrigð skynsemi segir manni að svona tilfæringar ættu ekki að vera í boði,” segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi.