Allar líkur eru á að skrifað verði undir nýjan kjarasamning VR, Flóabandalagsins, LÍV og Stéttarfélags Vesturlands við Samtök atvinnulífsins (SA) eftir hádegi í dag. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir við Fréttablaðið að samningurinn verði borinn undir stjórn VR á eftir og fáist samþykki sé hægt að ganga frá undirritun. Eftir hana verða félagsmenn í verkalýðsfélögunum að greiða um samninganna atkvæði áður en hægt verður að samþykkja þá að fullu.
Í Morgunblaðinu er sagt frá því að nokkur stór mál hafi vafist fyrir samningsnefndunum á lokametrum samningsviðræðna. Meðal þeirra mála var krafa verkalýðsfélaga um sérstaka launahækkun fyrir fiskvinnslufólk. Því máli tókst að ljúka um tíuleytið í gærkvöldi.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, sagði við Morgunblaðið að kjarasamningurinn væri mjög kostnaðarsamur fyrir atvinnulífið. Vonir væru bundnar við að með samningi til svo lanfs tíma tækist að vinna áfram á grundvelli aukins kaupmáttar og áframhaldandi stöðugleika.
Lágmarkslaun verða 300 þúsund krónur árið 2018
Líkt og greint hefur verið frá er um samninga til loka árs 2018. Samkvæmt þeim eiga lágmarkslaun að hækka upp í 300 þúsund krónur í þrepum á samningstímanum og launataxtar um 25 þúsund strax við samþykkt samninganna. Auk þess verður sett á fót svokölluð launaþróunartrygging. Hún verður upp á 7,2 prósent hækkun fyrir fólk með tekjur undir 300 þúsund krónur á mánuði en prósentan lækkar síðan eftir hærri tekjum og verður að lágmarki þrjú prósent.
Laun munu koma til með að hækka jafnt og þétt til ársins 2018 með launaþróunartryggingu upp á 5,5 prósent árið 2016, taxtahækkun upp á 4,5 prósent og almennri hækkun upp á þrjú prósent árið 2017 og loks þrjú prósenta taxtahækkun og tveggja prósenta almennri hækkun árið 2018.
Stjórnarandstaðan óttast skattalækkanir
Í Fréttablaðinu er einnig greint frá því að stjórnarandstaðan óttist skattalækkunartillögurnar sem ríkisstjórnin ætlar að ráðast í sem innlegg í kjarasamninga. Þær snúast um að afnema milliskattþrepið þannig að einungis tvö skattþrep verði í landinu. Skattlagning í efra þrepi mun hefjast við 700 þúsund króna mánaðarlaun og kostnaður ríkissjóðs er talin verða á bilinu 15 til 17 milljarðar króna þegar breytingin er komin að fullu til framkvæmda í árslok 2017. Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna segja að slík aðgerð feli í sér að skattkerfið nýtist ekki eins vel til tekjujöfnunar, en flokkarnir hafa ekki fengið kynningu á tillögunum.