Mjólkurbúið Kú fagnar breytingum MS þess efnis að fyrirtækið bjóði smærri framleiðendum allt að 300 þúsund lítra af ógerilsneiddri hrámjólk á 85 krónur á hvern lítra, eða á sama verði og MS greiðir bændum fyrir mjólk. Mjólkurbúið Kú hefur um árabil talið sig njóta mun lakari viðskiptakjara en framleiðendur tengdir MS og hefur leitað réttar síns hjá samkeppnisyfirvöldum, þar sem málið er enn til meðferðar.
Þetta segir í tilkynningu frá Ólafi M. Magnússyni, framkvæmdastjóra Kú, þar sem brugðist er við ákvörðun Mjólkursamsölunnar um að lækka verð á ógerilsneyddri hrámjólk til annarra framleiðenda frá og með 1. október næstkomandi.
„Við hjá Mjólkurbúinu Kú tökum í útrétta sáttahönd nýráðins forstjóra MS. Við horfum bjartsýn fram á veg og erum staðráðin í að nýta þetta skref í jafnræðisátt til þess að efla starfsemi okkar íslenskum neytendum til hagsbóta,“ segir í tilkynningu frá Kú. Ari Edwald tók við starfi forstjóra MS nú í sumar.
Í tilkynningu frá MS í gær sagði að lækkunin væri til að bregðast við umræðu um samkeppnismál á mjólkurvörumarkaði, og til að stuðla að fjölbreyttari og gróskumeiri framleiðslu á mjólkurvörum. „Aðgerðir MS nú miða að því að styrkja smærri framleiðendur og gera nýjum aðilum auðveldara með að hefja rekstur, byrja framleiðslu og ná að vaxa og dafna á markaði,“ sagði í tilkynningu en lækkunin nemur ellefu prósentum.
Jákvætt skref
Félag atvinnurekenda (FA) segist „fagna frumkvæði Mjólkursamsölunnar að því að stuðla að öflugri samkeppni á mjólkurmarkaði með því að lækka verð á ógerilsneyddri hrámjólk til keppinauta sinna“. Það sé klárlega jákvætt skref og til marks um breyttar áherslur, segir Ólafur Stephenssen, framkvæmdastjóri FA.
Á heimasíðu samtakanna bendir hann á að þótt MS komi þannig til móts við þá gagnrýni sem fyrirtækið hefur fengið vegna þess hvernig það beitir markaðsráðandi stöðu sinni, dugi það ekki til að laga samkeppnisstöðuna á mjólkurmarkaði. „Samkeppnisumhverfið er áfram mjög óheilbrigt. Þrennt þarf að koma til. Í fyrsta lagi að undanþágur mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum verði afnumdar, svo og hindranir gegn samkeppni á mjólkurmarkaði í búvörulögunum. Í öðru lagi þarf að lækka tolla á innflutningi, eins og Hagfræðistofnun HÍ lagði nýlega til, þannig að innlend mjólkurframleiðsla fái meiri samkeppni. Í þriðja lagi ætti að skoða tillögur samkeppnisyfirvalda um að selja frá MS einstakar framleiðslueiningar þannig að raunveruleg samkeppni komist á.“