Mjólkursamsalan ætlar að lækka verð á ógerilsneyddri hrámjólk til annarra framleiðenda á mjólkurvörum frá og með 1. október næstkomandi. Fyrirtækið ætlar að bjóða þeim sem vilja framleiða úr mjólk að fá allt að 300 þúsund lítra á ári á sama verði og MS greiðir bændum, en það eru tæplega 85 krónur á lítrann.
Þetta er gert til að bregðast við umræðu um samkeppnismál á mjólkurvörumarkaði, og til að stuðla að fjölbreyttari og gróskumeiri framleiðslu á mjólkurvörum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ara Edwald, forstjóra MS.
„Aðgerðir MS nú miða að því að styrkja smærri framleiðendur og gera nýjum aðilum auðveldara með að hefja rekstur, byrja framleiðslu og ná að vaxa og dafna á markaði,“ segir í tilkynningu MS.
Lækkunin nemur rúmlega 11 prósentum frá almennu verði á ógerilsneyddri hrámjólk. Þetta felur í sér að MS veitir öðrum framleiðendum „endurgjaldslausan aðgang að því kerfi sem fyrirtækið rekur“.
MS segist vona að þetta verði lyftistöng fyrir nýja framleiðslu frá fleiri aðilum og að þetta sé jöfnun á aðstöðu stórs og lítilla aðila, sem sé mikilvægt sanngirnismál og að MS sé að mæta samfélagslegri skyldu.
Samkeppnislagabrot vegna hrámjólkur enn í skoðun
Samkeppniseftirlitið sektaði MS um 370 milljónir króna fyrir samkeppnisbrot gegn mjólkurbúinu Kú í september í fyrra. MS hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja samkeppnisaðilum Kú, sem eru tengdir MS, hrámjólk á 17 prósent lægra verði en því sem Kú bauðst.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að þeirri niðurstöðu í desember að fella yrði úrskurðinn úr gildi, vegna þess að MS upplýsti ekki eftirlitið um samning á milli fyrirtækisins og Kaupfélags Skagfirðinga, sem á hlut í MS og er einn þeirra aðila sem fékk hrámjólk á lægra verði. MS lagði samninginn ekki fram fyrr en við málflutning fyrir áfrýjunarnefndinni, þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hefði ítrekað beðið um skýringar og gögn frá fyrirtækinu.
Áfrýjunarnefndin taldi að henni væri því skylt að vísa málinu aftur til Samkeppniseftirlitsins. Áfrýjunarnefndin tók enga efnislega afstöðu til málsins heldur taldi að ekki hefðu komið fram fullnægandi skýringar af hálfu MS á framkvæmd samningsins fyrir nefndinni. Þess vegna ætti Samkeppniseftirlitið að rannsaka málið aftur, með hliðsjón af umræddum samningi, og komast að nýrri niðurstöðu um hvort MS hefði brotið samkeppnislög. Niðurstaða er ekki komin í málið enn.