Stærstur hluti af þeirri matvöru sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á þann 24. ágúst síðastliðinn hefur hækkað í verði frá sambærilegri könnun sem gerð var í byrjun september 2014. Verð í verslunum Bónus, Krónunni, Iceland, Fjarðarkaupum, Samkaupum-Úrval og Hagkaupum hefur hækkað. Í verslunum Víðis og Nettó hefur verð frekar verið að lækkað en hækka, en í báðum verslunum er um verðlækkun að ræða í 60 prósent tilvika.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) í dag sem segir það áberandi að vöruflokkurinn „ostur, viðbit og mjólkurvörur“ fari hækkandi í verslunum, þrátt fyrir verðlækkanir. „Sem dæmi um vörur sem hafa hækkað í verði má nefna að stoðmjólk frá MS hefur hækkað um 4-10%, undarrenna um 2-9%, Stóri Dímon um 1-9% og smjörvi um 1-25%. Af öðrum vörum sem hækka í verði má nefna „spelt flatkökur“ frá Ömmubakstri sem hafa hækkað um 7-19%. Kindabjúgu frá Búrfelli hafa hækkað í verði um 3-18%. Þurrvaran Tilda basmalti grjón 4*125 gr. hefur hækkað um allt að 16% og BKI kaffi classic hækkað um allt að 12%.“
Þá eru einnig sjáanlegar verðlækkanir. Við niðurfellingu vörugjalda um áramót, sem sykurskattur var hluti af, hefur ódýrasta kílóið af sykri lækkað um 60 til 65 prósent. „Aðrar vörur sem innihalda mikinn sykur eða sætuefni hafa einnig lækkað í verði eins og gosdrykkir, m.a. hefur 2 l. af Mix lækkað um allt að 10%,“ segir ASÍ.
„Um áramótin var hækkun á virðisaukaskatti úr 7 í 11%, sem gaf tilefni til 3,7% hækkunar á mat- og drykkjarvörum. Samanburðurinn sýnir í mörgum tilvikum hækkun umfram það.“