Yfir helmingur Íslendinga telur að íslenska karlalandsliðið í fótbolta muni ná stigi í leiknum gegn Hollandi í kvöld, samkvæmt nýrri könnun sem MMR gerði.
MMR spurði: „hver heldur þú að úrslitin verði í leik karlalandsliða Hollands og Íslands í knattspyrnu sem fram fer í Hollandi þann 3. september næstkomandi?“ 47,8 prósent þeirra sem svöruðu telja að Hollendingar beri sigur úr býtum. 19,8 prósent telja að leiknum lykti með jafntelfi og 32,3 prósent telja að Ísland vinni.
Karlar eru svartsýnni á gengi Íslands en konur, en 54,8 prósent karla telja að Hollendingar vinni, en 39,3 prósent kvenna. 43,5 prósent kvenna telja að Ísland vinni en aðeins 23,3 prósent karla.
Þá er munur á svörunum eftir tekjum, þeir sem hafa lægri heimilistekjur eru bjartsýnni á gengi Íslands í kvöld. 44,6 prósent þeirra sem eru í tekjulægsta hópnum telja að Ísland vinni leikinn, en 22,7 prósent þeirra sem eru með 800 til 999 þúsund á mánuði.
Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru líklegri til að telja að Ísland vinni leikinn, en 36,2 prósent stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar telja að Ísland vinni, á móti 30,7 prósentum þeirra sem ekki styðja stjórnina.
37,2 prósent kjósenda Framsóknarflokksins telja að Ísland vinni og 37,5 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Þá telja 35,7 prósent kjósenda VG að Ísland beri sigur úr býtum. Stuðningsmenn annarra flokka voru svartsýnni á sigur Íslendinga.
1.023 einstaklingar voru spurðir og 71,1 prósent þeirra tóku afstöðu og spáðu fyrir um úrslit leiksins.