„Því er haldið fram að með því að láta Landspítalann hafa aukið fjármagn þá leysist öll okkar vandamál. Ég held að málið sé því miður ekki svo einfalt.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þar sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherra hvort ekki væri full ástæða til þess að endurskoða fjármálaáætlun í ljósi þess neyðarástands sem ríkir á bráðamóttöku Landspítalans og ætla spítalanum meira fé?
Logi vísaði í viðtal við Hjalta Má Björgvinsson, bráðalækni og starfandi yfirlækni á bráðadeild Landspítalans, við mbl.is í síðustu viku þar sem hann sagði ástandið hið versta í sögu bráðadeildarinnar. Dæmi eru um uppsagnir hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökunni vegna langvarandi álags og lélegs aðbúnaðar.
Logi vísaði einnig í umsögn Landspítalans um fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027, þar sem bent er á á mikið álag spítalans vegna COVID-19 og hækkandi aldurs þjóðarinnar. Í umsögninni segir að verði það niðurstaðan, að fjárveitingar til rekstrar Landspítala hækki um eitt prósent á næsta ári, tvö prósent næstu tvö ár þar á eftir og 1,3 prósent árin þar á eftir, er ljóst að Landspítali mun ekki ná þeirri viðspyrnu sem nauðsynleg er í kjölfar COVID-19 og mun eiga mjög erfitt með að mæta þeim miklu áskorunum sem spítalinn stendur frammi fyrir. „Slík niðurstaða yrði mikil vonbrigði,“ segir í umsögninni.
Freistandi að spyrja ráðherra að þessu í pólitískum tilgangi
Bjarni sagði að vissulega væri verið að snerta á mjög mikilvægu máli sem varðar heilbrigðisþjónustuna í landinu en sagði að horfa þurfi til fjölbreyttari úrræða en aukið fjármagn.
„Mönnunarvandinn einn og sér verður ekki leystur með aukinni fjárheimild til Landspítalans. Við hljótum að geta verið sammála um það,“ sagði Bjarni .
„Það er eflaust í pólitískum tilgangi dálítið freistandi að koma með þessa einföldu mynd, spyrja fjármálaráðherrann: Geturðu ekki bara mokað peningum í vandann og þá hverfur vandamálið? En það er því miður ekki svona,“ sagði fjármálaráðherra jafnframt.
Logi sagðist meðvitaður um að auðvitað leysast ekki öll vandamál með auknu fé. „En það vantar,“ sagði Logi og vísaði aftur í umsögn Landspítalans við fjármálaáætlunina. „Við erum að missa okkar besta fólk vegna vanfjármögnunar og vegna skorts á yfirsýn. Hæstvirtur fjármálaráðherra verður einfaldlega að líta í eigin barm vegna þess að ríkisstjórnum hans hefur ekki tekist að leysa þann vanda sem hann vísar kannski til að hægt væri að leysa.“
Bjarni viðurkenndi að heilbrigðismálin heilt yfir væru gríðarlega mikil áskorun en sagði flest þeirra mála sem Logi minntist á ekki verða leyst úr fjármálaráðuneytinu einu með auknum fjárframlögum heldur kalli þau á mikla samhæfingu í kerfinu í heild.