Hagnaður MP banka á síðari árshelmingi 2014 nam 494 milljónum króna samanborið við 159 milljóna króna tap á fyrri árshelmingi. „Afkoma ársins 2014 er því 335 milljóna króna hagnaður eftir skatta, samanborið við 477 milljóna króna tap árið 2013,“ segir í fréttatilkynningu frá MP banka.
„Bætt afkoma í rekstri MP banka á síðari hluta ársins 2014 endurspeglar jákvæða þróun rekstrartekna bankans, en þær jukust um 23% á milli árshelminga. Rekstrartekjur námu 1.836 milljónum króna á síðari árshelmingi, en voru 1.492 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Rekstrartekjur ársins í heild námu því 3.328 milljónum króna. Hreinar þóknanatekjur jukust um 12% á milli árshluta 2014, en þær námu 814 milljónum króna á fyrri hluta ársins og 916 milljónum króna á síðari hluta ársins. Hreinar þóknanatekjur ársins 2014 í heild námu því 1.730 milljónum króna. Hreinar vaxtatekjur lækkuðu um 7% á milli árshelminga. Þær námu 628 milljónum króna á síðari hluta ársins en voru 674 milljónir króna á fyrri hluta þess. Fyrir árið í heild námu hreinar vaxtatekjur 1.302 milljónum króna. Verulegur viðsnúningur varð í fjárfestingartekjum á milli árshelminga og námu þær 234 milljónum króna á síðari hluta ársins, m.a. vegna söluhagnaðar af eignum bankans í Litháen,“ segir í fréttatilkynningu frá MP banka.
Íslandsbanki og Arion banki skiluðu báðir uppgjörum í gær. Íslandsbanki hagnaðist um 22,8 milljarða króna í fyrra og Arion banki um 28,7 milljarða.
MP banki og Straumur hafa þegar tilkynnt um vilja hluthafa bankanna til þess að sameinast. Straumur hagnaðist um 225 milljónir í fyrra, og nam samanlagður hagnaður bankanna tveggja því 560 milljónum króna.