Stjórnir MP banka hf. og Virðingar hf. hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að halda ekki áfram viðræðum um sameiningu félaganna. Tilkynnt var um formlegar viðræður þann 9. september síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum. „Aðilar telja að viðræðurnar hafi verið áhugaverðar og að miklir möguleikar geti falist í sameiningu félaganna. Þær leiddu þó í ljós að áherslur og hugmyndir stjórna félaganna voru ekki að öllu leyti þær sömu,“ segir í tilkynningu frá félögunum.
Kjarninn greindi frá því í lok ágúst og byrjun september að minni fjármálafyrirtæki á Íslandi hefðu rætt um að sameina krafta sína og voru hluthafar MP banka og Virðingar þar á meðal.
MP banki er með um 70 starfsmenn. Forstjóri er Sigurður Atli Jónsson og formaður stjórnar er Þorsteinn Pálsson. MP banki er eini bankinn sem er að fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. MP banki sérhæfir sig í að veita alhliða þjónustu á sviði eignastýringar og fjárfestingarbankastarfsemi ásamt því að veita íslenskum fjárfestum, sparifjáreigendum og atvinnulífi sérhæfða bankaþjónustu. Afkomueiningar MP banka eru eignastýring, banki og markaðir.
Virðing er alhliða verðbréfafyrirtæki sem veitir fjárfestingatengda þjónustu á sviði eignastýringar, markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og reksturs framtakssjóða. Virðing hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og starfar undir eftirliti FME. Forstjóri félagsins er Hannes Frímann Hrólfsson og stjórnarformaður Kristín Pétursdóttir, sem jafnframt er stærsti einstaki eigandi í gegnum KP Capital ehf.