Innan við 60 prósent þeirra barna sem fæddust í fyrra voru skráð í Þjóðkirkjuna við fæðingu. Hlutfallið hefur lækkað verulega frá árinu 2005, þegar það var rúmlega 80 prósent. Á sama tímabili hefur börnum sem eru skráð með ótilgreinda trúfélags- eða lífsskoðunaraðild fjölgað mikið, eða úr tæpum 6 prósentum barna sem fæddust árið 2005 í rúmlega 26 prósent barna sem fæddust árið 2014.
Þetta er hægt að sjá út úr tölum sem birtust í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, um skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög.
45.560 lifandi fædd börn komu í heiminn á Íslandi á árunum 2005 til 2014. 1.716 börn voru skráð utan trú- eða lífsskoðunarfélaga og 4.774 börn voru skráð með ótilgreinda trúfélags- eða lífsskoðunarfélagsaðild. Eftir að ný lög tóku gildi í byrjun árs 2013 eru börn skráð með stöðuna „ótilgreind trúfélags- eða lífsskoðunarfélagsaðild“ ef foreldrar þeirra eru í hjúskap eða sambúð en ekki í sama trúfélagi. Foreldrar þurfa þá að taka sameiginlega ákvörðun um trúfélag en fram að því er barnið skráð með ótilgreinda stöðu.
Þá er samkvæmt lögunum eftir breytingu hægt að biðja um að börn fái þessa skráningu, auk þess sem íslensk börn í útlöndum eru nú skráð á þennan hátt. Annars gildir enn að börn eru skráð í trúfélög eftir trúfélagi þess foreldris sem fer með forsjá, eða utan trúfélags ef foreldrið er utan trúfélags. Þessi breyting hefur haft mikið um skráninguna að segja, en milli áranna 2012 og 2013 fór hlutfall barna sem ekki eru í tilgreindu trú- eða lífsskoðunarfélagi úr níu prósentum í rúmlega 20 prósent.
Á tímabilinu sem spurt var um, 2005 til 2014, voru 2.113 börn skráð í Kaþólsku kirkjuna og 1.272 í Fríkirkjuna í Reykjavík. Færri börn voru skráð í önnur trú- og lífsskoðunarfélög.
Einnig var spurt að því hversu mörg börn voru skráð í trú- og lífsskoðunarfélög innan árs frá fæðingu á þessu sama tímabili. Í svarinu kemur fram að breytingar hafi verið gerðar á trúfélagaskráningu 1.732 barna. Flest þessara barna voru skráð í Kaþólsku kirkjuna, rúmlega 22 prósent eða 385 börn. 374 börn voru skráð í Fríkirkjuna í Reykjavík, eða 21,5 prósent, og 361 barn var skráð í Þjóðkirkjuna, eða 20,8 prósent. 175 börn voru skráð utan trúfélaga og 125 með ótilgreinda trúfélags- eða lífsskoðunarfélagsaðild.