Alls styðja 47 prósent landsmanna aðild Íslands að Evrópusambandinu, en 33 prósent þeirra eru mótfallnir henni. Þetta kemur fram í nýbirtum þjóðarpúlsi Gallup.
Þetta er viðsnúningur frá fyrri mælingum fyrirtækisins á stuðningi við Evrópusambandið árin 2010 og 2014, en þá var um þriðjungur þjóðarinnar með aðild á meðan helmingur hennar var á móti henni.
Stuðningurinn er líka mun meiri en mældist í reglulegum mælingum MMR á Evrópusambandsaðild í desember í fyrra, en þar voru 31 prósent svarenda hlynnt aðild á meðan 44 prósent þeirra voru andvígir aðild Íslands að ESB. MMR gerði mánaðarlegar skoðanakannanir á viðhorfum til Evrópusambandsins frá 2011 til 2021, en samkvæmt þeim hafa aldrei meira en 40 prósent viðmælenda verið hlynnt aðild.
Gallup kannaði einnig viðhorf til aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO), en samkvæmt þjóðarpúlsinum eru 75 prósent landsmanna hlynnt henni, á meðan níu prósent þeirra eru andvíg. Fjöldi þeirra sem er andvígur NATO-aðild er nú töluvert minni en árin 2003 og 2001, en þá vildu 13-14 prósent viðmælenda Gallup ekki að Ísland væri í NATO-samstarfinu.
Alls tóku 908 manns þátt í könnun Gallup af 1.780 manna úrtaki. Viðmælendur voru allir valdir af handahófi úr viðhorfahópi fyrirtækisins.