Það er útlit fyrir áhugavert vor á Íslandi. Fyrstu verkföllin eru rétt handan við hornið, en þau munu hefjast beint eftir páska eins og staðan er núna. Það virðist afskaplega lítil hreyfing vera í mörgum kjaradeilum og vinnumarkaðurinn virðist loga.
Alþingi kemur ekki saman á ný eftir páska fyrr en 13. apríl. Það eru ríflega tuttugu þingfundadagar eftir samkvæmt dagskrá þingsins, og á þessum tíma er áætlað að ræða fjölda mála. Búið er að lofa stjórnarandstöðunni að ræða tillögu hennar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald Evrópusambandsviðræðna strax eftir páska. Með framgöngu sinni og bréfasendingum í málinu hleypti ríkisstjórnin þingstörfum í mikið uppnám og Alþingi hefur eiginlega logað undanfarið rétt eins og vinnumarkaðurinn. Ríkisstjórnin er svo með lista af málum sem hún vill koma í gegn áður en þingið fer í frí og meðal þess sem verður að klárast, að mati ráðherra, eru veiðigjöld og húsnæðismálin.
Það verður því sérlega athyglisvert að fylgjast með ríkisstjórninni eftir páska. Ætlar hún að reyna að slökkva einhverja elda? Eða förum við inn í sumarið með verkföll, óleystar kjaradeilur og þvingað sumarþing til að redda málunum?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.