„Þegar litið er í baksýnisspegilinn má sjá að hagkerfið hefur áður verið á svpiðum stað og um þessar mundir. Á sama tíma og slakinn í þjóðarbúinu er að hverfa og umfram eftirspurn myndast eftir aðföngum og vinnuafli hefur atvinnuleysi sögulega séð gjarnan farið lækkandi og myndað launaþrýsting á vinnumarkaði,“ segir í nýrri greiningu frá greiningardeild Arion banka þar sem rýnt er í verðbólguþróun. Greiningardeildin bendir á að ársbreyting launa hafi gjarnan hækkað úr fjórum prósentum í tíu prósent eða meira. Það sé verulega yfir því svigrúmi sem verðbólgumarkmið Seðlabankans leyfir en markmiðið er 2,5 prósent. „Í kjölfarið myndast verðbólguþrýstingur og ársverðbólgan hækkar í sex til níu prósent. Velta má fyrir sér hvort sagan sé að endurtaka sig að þessu sinni,“ segir í pistlinum.
Gröf úr verðbólguspá greiningardeildar Arion banka. Myndirnar sýna hvernig laun og verðbólga á Íslandi hafa þróast á þremur mismunandi tímabilum. Spurt er hvort sama verði upp á teningnum í dag.
Greiningardeild bankans spáðir 0,3 prósent hækkun vísitölu neysluverðs í júní. Ársverðbólga verður þá 1,6 prósent, enn undir markmiði Seðlabankans sem hækkaði þó í gær stýrivexti um 0,5 prósentur. „Við spáum því að verðbólgan fari hækkandi næstu mánuði og stnadi í 2,3 prósentum í september og fari yfir 3 prósent fyrir árslok. Launakostnaður verður helsti drifkraftur verðbólgunnar næstu mánuði og mun það endurspeglast í verðlagi á innlendri þjónsutu og innlendum neysluvörum. Einnig mun sterk eftirspurn þrýsta verðlag upp á við og ef slökum á aðhaldi í ríkisfjármálum raungerist á haustmánuðum eru allar líkur á að verðbólgan haldi áfram að hækka vel inn á næsta ár.“