Það mun taka 15 til 20 ár að ljúka flutningi Fiskistofu til Akureyrar í kjölfar ákvörðunar Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að falla frá því að starfsmenn hennar flyttu með stofnuninni. Þess í stað mun einungis forstjóri Fiskistofu, Eyþór Björnsson, flytjast norður og önnur störf færast síðan þangað í gegnum eðlilega starfsmannaveltu. Þ.e. þegar einhver í höfuðstöðvunum í Hafnarfirði hættir þá verður ráðið í hans stað á Akureyri.
Eyþór segir í samtali við Morgunblaðið í dag að þetta þýði í raun að þeir sem eru í starfi í dag geti verið eins lengi og hentar Fiskistofu að þeir séu í starfi. Eðlileg starfsmannavelta á Fiskistofu hafi verið sex til tíu prósent á ári og miðað við það muni taka 15 til 20 ár að flytja stofnunina. Þangað til verða höfuðstvöðvarnar klofnar á tveimur stöðum, í Hafnarfirði og á Akureyri.
Flutningum átti að ljúka í árslok 2016
Sigurður Ingi tilkynnti um flutning Fiskistofu seint í júní á síðasta ári. Flytja átti höfustöðvar stofnunarinnar til Akureyrar þann 1. júlí 2015 og flutningnum átti að ljúka að fullu í árslok 2016.
Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd, ekki síst af starfsmönnum stofnunarinnar. Í tilkynningu sem starfsfólkið sendi frá sér í lok september síðastliðinn segir að flutningurinn sé ólöglegur og engin fagleg sjónarmið búi að baki. Þá hefði enginn starfsmaður Fiskistofu lýst yfir vilja til þess að flytja með stofnuninni til Akureyrar, að forstjóranum frátöldum. Málflutningur stjórnmálamanna, þar sem landsbyggð og höfuðborgarsvæðinu sé att saman, hafi verið óboðlegur og óþolandi þegar um pólitíska hreppaflutninga sé að ræða, þar sem flytja á sérfræðimenntað fólk, nauðugt viljugt, milli landshluta án málefnalegra skýringa.
Í athugasemdum starfsmanna Fiskistofu til umboðsmanns Alþingis vegna flutningar stofnunarinnar, sem birtar voru í janúar 2015, segir að ákvörðun Sigurðar Inga um flutning Fiskistofu hafði ekki lagastoð og var því ólögmæt. Áform um að leita heimildar þingsins nú í vetur breytir engu þar um. Tal ráðherrans um að ekki hafi verið ákveðið að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar er einnig rangt og hann reynir að afvegaleiða eftirlitsstofnun Alþingis með því.
Þar voru líka gerðar miklar athugasemdir við svör Sigurðar Inga til umboðsmanns fyrir jól vegna málsins. Ráðherra talar þar um áform um að flytja Fiskistofu, en ekki ákvörðun. Þetta er rangt, og ámælisvert, að mati starfsmanna Fiskistofu. Starfsmennirnir vitna í hljóðskrár af fundum með ráðherranum sem og ummæli hans í fjölmiðlum til að stuðnings þessu. „Ráðherra getur ekki bent á lagaheimildir fyrir ákvörðun sinni, sem eðlilegt er, þar sem þær eðli málsins samkvæmt finnast ekki.“
Fellur frá flutningi
Sigurður Ingi ákvað í þessari viku að falla frá því að starfsmenn Fiskistofu, að undanskildum Fiskistofustjóra, þurfi að flytja til Akureyrar. Þetta var tilkynnt með bréfi sem hann afhenti Fiskistofustjóra og fulltrúa starfsmanna á fundi síðastliðinn miðvikudag. Starfsmenn telja niðurstöðuna fullnaðarsigur.
Bréf Sigurðar Inga er skrifað í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis þar sem fjallað var um fyrirhugaða flutninga Fiskistofu. Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemdir við undirbúning áformanna og samskipti ráðuneytisins við stofnunina og starfsfólk hennar. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið hafi kynnt sér álitið og muni leitast við að fylgja þeim leiðbeiningum sem umboðsmaður veitir með áliti sínu.