Stöðugleikaauglýsing Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur lengi vel farið fyrir brjóstið á stórum hluta verkafólks. Þar er það hvatt til að sækja sér lágar launahækkanir til að viðhalda stöðugleika og lágri verðbólgu. Samhliða hefur verið töluvert launaskrið hjá forstjórum, í fjármálageiranum, hjá kennurum og nú síðast læknum.
Verkalýðsfélag Akraness, sem Vilhjálmur Birgisson veitir forstöðu, hefur birt sína túlkun á þeim boðskap sem Samtök atvinnulífsins setja fram í þessum þekktu auglýsingum. Þar segir meðal annars að stöðugleikinn hafi skilað „minna handa verkafólki sem skilar sér í meira handa stjórnendum" og að greiða „lágmarkslaun sem duga ekki fyrir lágmarksframfærslu þýðir að við getum aukið bónusa og aðrar kaupaukagreiðslur til okkar".
Hér má sjá túlkun verkafólks á auglýsingunni. Í síðari hluta myndbandsins birtist upprunaleg auglýsing Samtaka atvinnulífsins.
http://youtu.be/A3UvhInUQmI
Hrafn Jónsson, pistlahöfundur hjá Kjarnanum, setti líka fram harða gagnrýni á auglýsingu Samtaka atvinnulífsins í nýjum pistli sínum sem birtist á fimmtudag. Þar segir m.a.:„Samtök atvinnulífsins hafa gert það að árlegum sið að gefa út klámfengið myndband þar sem litríkar teiknmyndafígúrur tala við almenning eins og hann sé greindarskertur um það af hverju það sé öllum fyrir bestu að láglaunastéttir haldi áfram að vera fátækar. Það verða allir að taka höndum saman og viðhalda þeim árangri í stöðugleika sem náðst hefur síðustu ár. Seðlabankastjóri tekur í sama streng og auðvitað fjármálaráðherra líka. Hinn heilaga stöðugleika ber að vernda líkt og biskup sjálfur hafi blessað hann.
Ég hef reyndar aldrei skilið af hverju það eru lægstu stéttirnar sem þurfa að halda uppi þessum valta Jenga-turni sem hagkerfið virðist vera. Það virðist samt engu skipta hversu mikið af andafitu efri þrepin troða í sig – það ógnar engum stöðugleika – en um leið og skúringakona á Akranesi biður um meira en 2,8% hækkun á 214.000 krónurnar sínar þá leggjast allar plágur Egyptalands á okkur. Þetta er stöðugleiki eins og beinaberir leggir á erítreskum þræl sem heldur uppi akfeitum rómverskum hedónista sem er sífellt að skamma hann fyrir að standa ekki í lappirnar; kerfi sem stendur og fellur með því að verkafólk hafi engar ráðastöfunartekjur er fúndamentallí galið".