Fólki sem starfaði við ferðaþjónustu og tengdar greinar fjölgaði um 2.700 á árinu 2014. Alls fjölgaði starfandi Íslendingum um 2.800 á því ári. Því eru vísbendingar um að vöxtur ferðaþjónustu beri ábyrgð á nær allri fjölgun starfa í fyrr.Þetta kemur fram í greiningu Ólafs Más Sigurðssonar, sérfræðings hjá Hagstofu Íslands, sem gerð var að beiðni Morgunblaðsins og sagt er frá í blaði dagsins.
Alls voru rúmlega 182 þúsund manns starfandi á Íslandi í janúar 2015. Þeir hafa aldrei verið fleiri. Um tólf þúsund manns hafi starfa við rekstur gististaða og veitingarekstur um síðustu áramót og greinin var þar af leiðandi orðin sú fimmta fjölmennasta á landinu. Greinin er til að mynda orðin stærri en byggingageirinn, þar sem 10.900 manns störfuðu á sama tíma.
Gríðarleg fjölgun ferðamanna
Um 62.700 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í janúar samkvæmt talningu Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það eru um 16.100 fleiri erlendir ferðamenn en í janúar á síðasta ári.
Aukningin nemur 34,5 prósentum á milli ára, en adrei hafa fleiri ferðamann mælst í janúar frá því að mælingar Ferðamálastofu hófust. Á síðustu fimm árum hefur fjöldi ferðamanna í janúar nærri þrefaldast, en þar munar mestu um mikla fjölgun Breta, en fjöldi ferðamanna frá Bretlandseyjum hefur fimmfaldast frá árinu 2010.
Heildarfjöldi erlendra ferðamanna sem komu til Íslands á árinu 2014 er er talin vera um 1,1 milljón. Tæplega ein milljón kom um Leifsstöð og um 121 þúsund með farþegarskipum.