Þau drög að nauðasamningum sem slitabú föllnu bankanna þriggja hafa sent inn til Seðlabankans uppfylla "í stórum dráttum skilyrði um stöðugleika í gengis- og peningamálum" og tryggja fjármálalegan stöðugleika í íslensku hagkerfi. Ýmis atriði þarf þó að skoða nánar, meðal annars áhrif nauðsamninganna á á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja og söluferli Íslandsbanka og Arion. "Sú skoðun er á lokastigi og í framhaldi af því gætu skapast forsendur fyrir nánari opinberri kynningu". Þetta kemur fram í svarbréfi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til Indefence-hópsins sem birt var á vef Seðlabanka Íslands í dag.
InDefence- hópurinn, sem er þekktastur fyrir andstöðu sína gagnvart Icesave-samningunum, hefur undanfarið látið sig afnám hafta og þá aðferðarfræði sem beitt er við þá aðgerð sig varða. Hópurinn telur að kröfuhafar föllnu bankanna séu að fá afslátt með greiðslu stöðugleikaframlags sem þeir eigi engan rétt á. Þess í stað eigi að leggja á slitabúin stöðugleikaskatt upp á 39 prósent.
Í síðustu viku sendi hópurinn seðlabankastjóra bréf þar sem þess var krafist að hann myndi samstundis birta hin svokölluðu stöðugleikaskilyrði sem slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbanka þurfa að uppfylla til að geta greitt stöðugleikaframlag og komast hjá skattlagningu.
Samkvæmt útreikningum Kjarnans mun sameiginlegt stöðugleikaframlag slitabúanna þriggja vera frá 330 til 380 milljarðar króna en stöðugleikaskattur á að skila allt að 850 milljörðum króna. Þau „spara“ sér því allt að 520 milljarða króna með því að mæta þeim frekar en að greiða stöðugleikaskatt.
Stöðugleikaskilyrðin þegar birt
Í svarbréfi Más kemur fram að stöðugleikaskilyrðin hafi þegar verið birt og vísar hann í yfirlýsingu Seðlabankans frá 8. júní, sama dag og ríkisstjórnin kynnti áætlun um losun hafta, því til stuðnings. "Þar kemur fram að við mat á hugsanlegum undanþágum vegna nauðasamninga muni bankinn horfa til þess að i) gerðar verði ráðstafanir sem dragi nægilega úr neikvæðum áhrifum af útgreiðslum andvirðis eigna í íslenskum krónum, ii) að öðrum innlendum eignum fallinna fjármálafyrirtækja í erlendum gjaldeyri verði breytt í langtímafjármögnun að því marki sem þörf krefur og iii) að tryggt verði, í þeim tilvikum sem það á við, að lánafyrirgreiðsla stjórnvalda í erlendum gjaldeyri sem veitt var nýju bönkunum í kjölfar hruns á fjármálamarkaði verði endurgreidd. Ofangreint er kjarni stöðugleikaskilyrðanna sem byggt verður á við mat á undanþágubeiðnum og nauðasamningsdrögum búa föllnu bankanna."
Nú sé unnið að því að heimfæra þessi skilyrði upp á þá aðila sem falla undir stöðugleikaskatt og hyggjast fara leið undanþágu á grundvelli nauðsamnings og stöðugleikaskilyrða. Már segir að þó sú vinna sé vel á veg komin sé henni ekki lokið. Það sé því ekki á þessu stigi hægt að birta niðurstöðu þeirrar vinnu að svo stöddu.
Lagalegur ágreiningur vegna skatts myndi tefja losun hafta
Í bréfi InDefence-hópsins til Más var einnig spurt hvernig stöðugleikaskattur og nauðasamningar á grundvelli stöðugleikaskilyrða geti verið efnahagslega jafngild með hliðsjón að greiðslujöfnuði þjóðarinnar. Í svari Más segir: "Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að markmið stöðugleikaskattsins er ekki að afla ríkissjóði tekna heldur að koma í veg fyrir óstöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálaóstöðugleika við slit búa fallinna fjármálafyrirtækja. Því markmiði er einnig hægt að ná með öðrum hætti en skatti á allar eignir slitabúanna óháð mismunandi samsetningu eigna og krafna búanna og án þess að tekið sé tillit til þess að framlag búanna til greiðslujafnaðarvandans er mismikið."
Að sögn Más heur skattlagningarleiðin vissa annmarka. Meðal annars feli hún í sér meiri hættu á eftirmálum og lagalegum ágreiningi sem myndi leiða til þess að losun fjármagnshafta myndi ganga hægar en ella. "Hámarksfjárhæð stöðugleikaskattsins (án frádráttarliða) ætti því ekki að bera saman við fjárhæð stöðugleikaframlags, heldur verður að einnig taka tillit til annarra þátta nauðasamningsleiðar sem stuðlar að stöðugleika," segir Már.
Í aðdraganda þess að stjórnvöld kynntu aðgerðir sínar um losun hafta höfðu átt sér stað samningaviðræður milli þeirra og stærstu kröfuhafa föllnu bankanna um hvernig þeir ætluðu að mæta stöðugleikaskilyrðunum. Kröfuhafarnir höfðu þegar fallist á að gera það áður en áætlunin var kynnt. Síðan þá hafa slitastjórnir Glitnis, Kaupþings og Landsbankans allar sent Seðlabankanum beiðnir um undanþágur frá fjármagnshöftum og lagt fram drög að nauðasamningum sem Seðlabankinn hefur haft til meðferðar.
Í bréfi Más til InDefence segir: "Svo er að sjá að tillögurnar uppfylli í stórum dráttum skilyrði um stöðugleika í gengis- og peningamálum og tryggi fjármálalegan stöðugleika. Ýmis atriði hefur þó þurft að skoða nánar, m.a. áhrif á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja og söluferli Íslandsbanka og Arion. Sú skoðun er á lokastigi og í framhaldi af því gætu skapast forsendur fyrir nánari opinberri kynningu."