Mikilvægasta atvinnugrein íslenska hagkerfisins er ferðaþjónusta, miðað við nýjustu tölur, en gert er ráð fyrir að ferðamönnum muni fjölga um 20 til 30 prósent á næsta ári og þá fari heildarfjöldi á ári yfir 1,5 milljónir ferðamanna. Þessi vöxtur er með ólíkindum, en aðeins fyrir áratug síðan komu hingað til lands um 400 þúsund ferðamenn á ári. Fjöldinn hefur því næstum ferfaldast á áratug, sé miðað við spána fyrir næsta ár.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, telur vel koma til greina að innheimta komugjöld eða önnur gjöld af ferðamönnum, til að standa undir vaxandi kostnaði við hina ýmsu ferðamannastaði.
Þetta eru ágæt hugsun hjá Sigrúnu, en líklega þarf þó að hugsa um miklu stórtækari aðgerðir til að gera Ísland móttækilegra fyrir þeim mikla fjölda sem sækir landið heim.
Það er ekki óvarlegt að ætla, að nauðsynlegt sé að fjárfesta fyrir marga milljarða í þjóðgörðum landsins til að gera þá öruggari og betur til þess fallna að taka á móti ferðamönnum. Stórkostleg íslensk náttúra er helsta aðdráttarafl ferðamanna, og frekari fjárfesting í innviðum ferðaþjónustu, meðal annars í þjóðgörðunum, er óhjákvæmileg. Vonandi skoða stjórnvöld stöðu mála með opnum huga.