Í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, sem var lögð fram 26. nóvember 2014, er að finna margháttaða og beitta gagnrýni á ýmsa þætti frumvarpsins. Allir nefndarmenn, sama hvar í flokki þeir sitja, skrifa undir umsögnina.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að ekki hafi enn verið tekið tillit til ábendinga nefndar hans. „Við vitum að þetta var tekið til skoðunar hjá atvinnuveganefnd milli annarrar og þriðju umræðu vegna þess að ég kallaði eftir því að það yrði gert. Það virtist algjörlega hafa gleymst að taka tillit til ábendinga efnahags- og viðskiptanefndar.“
Búið að fresta afgreiðslu úr atvinnuveganefnd
Frumvarp til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarna daga eftir að Viðskiptablaðið upplýsti um innihald samnings sem Matorka og ríkisstjórn Íslands undirrituðu í lok síðasta mánaðar á grundvelli frumvarpsins. Kastljós fjallaði auk þess ítarlega um samninginn í gærkvöldi.
Samkvæmt samningnum fær Matorka allskyns ívilnanir, meðal annars skattaafslætti, sem gætu numið rúmlega 720 milljónum króna. Fyrirhuguð heildarfjárfesting fyrirtækisins er um 1.200 milljónir króna og því gæti hlutfall ívilinanna af nýfjárfestingunni numið allt að 60 prósent, samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins.
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, sagði við Kjarnann í gær að nefndin, sem enn er með frumvarpið um ívilnanir til nýfjárfestinga til umræðu, hafi ekki vitað neitt um samning atvinnuvegaráðuneytisins fyrr en fyrir skemmstu. Hann hefur frestað afgreiðslu á frumvarpinu út úr nefndinni á meðan að ýmsir þættir þess verða teknir til skoðunar.
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis.
Ríkisskattstjóri gerði alvarlegar athugasemdir
Í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar kemur meðal annars fram að ríkisskattstjóri hefði gert alvarlegar athugasemdir við frumvarpið í umsögn sinni um málið. Frumvarpið „auki flækjustig skattlagningar, auk þess sem skattframkvæmd verði dýrari með flóknum reglum fyrir tiltekna aðila.“
Nefndin gerir athugasemd við að samkvæmt frumvarpinu eigi að heimila þeim sem fá ívilnanir að greiða 50 prósent lægra tryggingagjald. Þann afslátt sé ekki unnt að veita nema með því að „taka álagninguna upp og handreikna afsláttinn og senda svo upplýsingar til Fjársýslu ríkisins sem leiðréttir fjárhæðir til innheimtu. Að mati nefndarinnar eru slík vinnubrögð fráleit og þarfnast frekari skoðunar.“
Hún telur einnig að 20 prósent eiginfjárviðmið sé of lágt og það gefi of lítið borð fyrir báru fyrir fyrirtækin sem fá ívilnun til að mæta ófyrirséðum áföllum. „Einnig vakna spurningar um hvort svo lítið eigið fé auðveldi um of að arður verði tekinn út skatfrjálst í formi vaxta í stað skattskylds arðs. Í því sambandi telur nefndin að skoða ætti hvort rétt væri að gera skilyrði um hærri eiginfjárkröfu, t.d. 40 prósent að lágmarki.“
Samráð við lykilaðila mikilvægt til að tryggja vönduð vinnubrögð
Nefndin segist meðvituð um að ívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja kunni að skekkja samkeppni milli fyrirtækja innanlands. Ekki verður hins vegar framhjá því litið „að íslensk fyrirtæki þurfa mörg hver að keppa við erlend fyrirtæki sem njóta margháttaðra ívilnana í heimalandi sínu. Einnig keppir Ísland sem staðsetningarkostur um nýfjárfestingar, svo dæmi sé tekið á sviði gagnavera, við önnur lönd sem reyna að laða til sín slíka starfsemi með umtalsverðum ívilnunum. Þá vekur nefndin athygli á þeim sjónarmiðum sem fram komu í umsögn Íslandsstofu við frumvarpið.
Í umsögninni [frá Íslandsstofu] er meðal annars gagnrýnt að ekki sé boðið upp á neinar almennar ívilnanir, þ.e. sem ekki tengjast aðeins skilgreindum svæðum á byggðakorti ESA heldur einnig þáttum á borð við fjárfestingarverkefni sem efla rannsóknir og þróun, ýta undir umhverfisvænni lausnir eða eru á vegum lítilla fyrirtækja. Slíkur kafli var í lögum nr. 99/2010. Ívilnun í formi þjálfunaraðstoðar fellur þannig brott en slík ívilnun er mikilvæg þegar kemur að fjárfestingarverkefnum sem flytja inn nýja tækni og þekkingu. Í ljósi framangreindra athugasemda ítrekar nefndin mikilvægi þess að samráð sé viðhaft við lykilaðila er koma að þessum málaflokki til að tryggja vönduð vinnubrögð við vinnslu frumvarpa“.